Skýrsla Mueller gerð opinber á skírdag

Donald Trump Bandaríkjaforseti, William Barr dómsmálaráðherra og Robert Mueller, sérstakur …
Donald Trump Bandaríkjaforseti, William Barr dómsmálaráðherra og Robert Mueller, sérstakur saksóknari FBI. Ritskoðuð útgáfa af skýrslu Muellers um meint afskipti rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum 2016 verður gerð opinber á skírdag. AFP

Ritskoðuð útgáfa af skýrslu Robert Muellers, sérstaks saksóknara bandarísku alríkislögreglunnar FBI, um meint afskipti rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum 2016 verður gerð opinber á skírdag. Talsmaður bandaríska dómsmálaráðuneytisins, Kerri Kupec, greindi frá þessu í dag og sagði dómsmálaráðherrann William P. Barr munu afhenda skýrsluna þinginu og gera hana aðgengilega almenningi.

New York Times segir að búast megi við áframhaldandi deilum milli ráðherrans og demókrata á þingi um það hversu stór eða lítill hluti skýrslunnar verði gerður aðgengilegur þingmönnum.

Lögfræðingar dómsmálaráðuneytisins hafa undanfarið unnið að því að strika yfir þá hluta skýrslu Muellers sem flokkast sem leynilegar upplýsingar, vitnisburðir fyrir kviðdómi, efni sem enn sé til rannsóknar og aðrar þær upplýsingar sem taldar eru viðkvæmar.

Barr, sem tók við embætti dómsmálaráðherra í febrúar, sagði í bréfi sem hann sendi dómsmálanefnd þingsins í síðasta mánuði að í skýrslunni sé að finna niðurstöður Muellers, innihald rannsóknarinnar og ástæður þess að hann komist að þessum niðurstöðum.

Í fjögurra blaðsíðna útdrætti sem Barr af­henti Banda­ríkjaþingi skömmu eftir að hann fékk skýrsluna afhenta segir hann ekki hafa verið óeðli­leg eða ólög­mæt sam­skipti milli fram­boðs Trump og rúss­neskra stjórn­valda í aðdrag­anda kosn­ing­anna. Mu­ell­er hreinsaði for­set­ann í skýrsl­unni ekki af því að hafa hindrað fram­gang rétt­vís­inn­ar. Dóms­málaráðherr­ann sagði hins veg­ar í út­drætti sín­um að ekki væru næg­ar sann­an­ir fyr­ir sekt Trumps.

„Brátt munu allir geta lesið þetta sjálfir,“ sagði Barr að því tilefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert