Ætla ekki að leyfa honum að sigra með dauða sínum

Jennifer Araoz, ein fórnarlamba Epsteins, ræðir við fjölmiðla utan við …
Jennifer Araoz, ein fórnarlamba Epsteins, ræðir við fjölmiðla utan við dómsalinn. Epstein nauðgaði henni á heimili sínu er hún var 14 ára. AFP

„Við stöndum sameinaðar hér í dag. Ég ætla mér ekki að vera fórnarlamb og þegja einum degi lengur,“ sagði Anouska De Georgiou, ein kvennanna sem lýsti fyrir héraðsdómi í New York í gær kynferðisofbeldi auðkýfingsins og barnaníðingsins Jeffrey Epstein.

16 af fórnarlömbum Epstein tjáðu sig fyrir héraðsdómi í New York-borg í gær og yfirlýsingar sjö til viðbótar voru lesnar upp fyrir réttinum. Rétt­ar­höld­in í gær voru þau síðustu í saka­mál­inu gegn Ep­stein þar sem mál­inu lauk með dauða hans. Sak­sókn­ar­ar segja þó að ásak­an­ir gegn öðrum verði skoðaðar áfram og ekki sé úti­lokað að höfðað verði mál gegn sam­verka­mönn­um hans. 

Ekki kusu allar kvennanna að tjá sig, en sumar lásu upp úr yfirlýsingum og nokkrar grétu er þær hlýddu á kunnuglega vitnisburði sem minntu mikið á þeirra eigin reynslu. Varnarlausar ungar konur voru ráðnar og traust þeirra unnið með það fyr­ir aug­um að mis­nota þær, en á ensku er slíkt at­hæfi nefnt „groom­ing“. Þær voru svo þvingaðar til að stunda kynlíf með Epstein.

Ætla ekki að leyfa honum að sigra með dauða sínum

Chauntae Davies, ein kvennanna, lýsti því hvernig hún hefði um tveggja vikna skeið „kastað svo mikið upp á sjúkrahúsi eftir að hafa verið nauðgað af Epstein að hún var nær dauða en lífi. Hún var fengin til að nudda Epstein fyrst á einkaeyju hans og lýsti „viðbjóðslegri misnotkun hans á ungum stúlkum“.

Lögfræðingurinn Gloria Allred, fyrir miðju, með tveimur skjóstæðingum sínum sem …
Lögfræðingurinn Gloria Allred, fyrir miðju, með tveimur skjóstæðingum sínum sem sakað hafa Epstein um kynferðisbrot. AFP

„Ég hef þjáðst fyrir alla þá opinberu niðurlægingu sem ég hef sætt og þannig hafði hann betur,“ sagði hún. „Ég ætla þó ekki að leyfa honum að sigra með dauða sínum.“

Önnur kona sem vildi ekki láta nafns síns getið sagðist að eilífu verða ásótt af minningunni um nauðgun Epstein. „Ég var þræll hans. Ég var hjálparlaus og full af skömm,“ sagði hún og kvað Epstein hafa hótað að myrða hana reyndist hún ekki vera hrein mey.

Meirihluti kvennanna lýsti yfir reiði yfir að Epstein hafi náð að taka eigið líf í fangelsinu á Manhattan.

„Ég er mjög reið af því að réttlætinu hefur ekki verið þjónað í þessu máli,“ sagði Courtney Wild og kvað Epstein vera „raggeit“.

Ástkonan sá um ráðningarnar

Jennifer Araoz, sem sagði Epstein hafa nauðgað henni á heimili hans í New York þegar hún var 15 ára, segir hann hafa rænt sig draumum sínum og tækifæri til að reyna fyrir sér í starfsferli sem heillaði hana. „Jafnvel í dauða sínum er Jeffrey Epstein að reyna að særa mig,“ sagði Araoz „Sú staðreynd að ég mun aldrei fá færi á að mæta árásarmanni mínum fyrir rétti nagar mig að innan,“ hefur BBC eftir henni.

Annie Farmer, sem sagði New York Times sögu sína í vikubyrjun, ítrekaði að hún og systir hennar Maria hefðu ítrekað reynt að tilkynna yfirvöldum um hegðan Epstein árið 1996, án árangurs. Það vildi enginn hlusta.

Nokkrar kvennanna sögðu þá frá því að það hefði verið breska yfirstéttarkonan Ghislaine Maxwell, sem er dóttir fjölmiðlabarónsins Robert Maxwell og var ástkona Epstein um tíma, sem réð þær upphaflega.  

Jeffrey Epstein lést í fangelsinu á Manhattan fyrr í þessum …
Jeffrey Epstein lést í fangelsinu á Manhattan fyrr í þessum mánuði. Hann átti allt að 45 ára dóm yfir höfði sér fyrir kynlífsmansal. AFP

Hvöttu þær saksóknara til að sækja einnig samverkamenn Epsteins til saka. Maxwell hefur neitað ásökununum gegn sér, en Maria Farmer lýsti því m.a. í viðtali sínu við New York Times hvernig bílstjóri hefði ekið Maxwell um í leit að stúlkum fyrir Epstein.

„Gerið það, gerið það ljúkið því sem þið byrjuðuð á. Bandarísku fórnarlömbin eru tilbúin að segja sannleikann. Hann var ekki einn að verki,“ sagði Sarah Ransome og fullyrti að Epstein hefði haldið úti „alþjóðlegum hring kynlífsmansals“.

Virginia Roberts Giuffre segist hafa verið misnotuð af Epstein árum saman og jafnframt lánuð út til auðugra vina hans, m.a. Andrew Bretaprins. Sagði hún uppgjörinu ekki mega ljúka, því verði að halda áfram.

Upptakan úr fangelsinu ónothæf

BBC segir lögmann bandarísku ríkistjórnarinnar Maurene Comey hafa fullvissaði fórnarlömbin um að saksóknarar muni halda rannsókn sinni áfram.

Fjöldi stjórnmálamanna og þekktra einstaklinga voru í vina- og kunningjahópi Epstein, m.a. áðurnefndur Bretaprins, Donald Trump Bandaríkjaforseti og Bill Clinton, fyrrverandi forseti.

Epstein átti yfir höfði sér allt að 45 ára fangelsi yrði hann fundinn sekur, en hann var handtekinn í júlí og ákærður fyrir kynlífsmansal á stúlkum allt niður í 14 ára aldur.

Epstein sætti svipaðri ákæru árið 2008 á Flórída og náði þá að semja um vægari dóm gegn því að lýsa sig sekan um minna brot. Hann tók svo líf sitt í fangelsi á Manhattan 10. ágúst, eftir að hafa reynt að gera slíkt áður í fangelsinu.

Dómarinn Richard Berman lofaði fórnarlömbin fyrir það hugrekki sem þau sýndu við að segja sögu sína og lýsti sjálfsvígi Epstein sem „ótrúlegri viðburðarás“, en lögfræðingur Epstein, Martin Weinberg, sagði lögfræðiteymi hans  efast um að Epstein hafi tekið eigið líf. Hvatti hann dómarann til að hefja sína eigin rannsókn á málinu.

„Við viljum endilega fá að vita hvað kom fyrir skjólstæðing okkar,“ sagði hann. Verjendur hefðu efasemdir varðandi niðurstöðu krufningar og eins hefðu komið upp vandkvæði varðandi eftirlitsmyndavélar í fangelsinu.

Washington Post hafði eftir yfirvöldum í gær að upptökur úr einni af eftirlitsmyndavélunum í ganginum nærri klefa Epstein hafi ekki reynst nothæfar, þótt skýrar myndir hefðu náðst annars staðar í nágrenninu. Ekki er ljóst hvað sást á upptökunni og af hverju hin upptakan taldist ekki nothæf.

Bæði FBI og bandaríska dómsmálaráðuneytið eru að rannsaka atvikið til að kanna hvort glæpur hafi verið framinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert