Trump aflýsir Póllandsferð sökum Dorian

Donald Trump hefur aflýst Póllandsför sinni um helgina til að …
Donald Trump hefur aflýst Póllandsför sinni um helgina til að vera til taks heima fyrir þegar fellibylurinn Dorian gengur á land á Flórída. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, fer í hans stað. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur aflýst för sinni til Póllands um helgina. Hann vill vera til taks þegar fellibylurinn Dorian gengur á land í Flórída seint á sunnudag, ef marka má nýjustu spár. 

Trump segist vilja tryggja að öllum úrræðum sem alríkisstjórnin geti boðið upp á verði beint að íbúum Flórída, þurfi þeir á þeim að halda. 

Minningarathöfn verður haldin í Varsjá um helgina þar sem áttatíu ár eru liðin frá upphafi síðari heimstyrjaldarinnar. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, verður viðstaddur í stað Trump, en hann er svo væntanlegur til Íslands á miðvikudag. 

Upphaflega stóð til að Trump myndi heimsækja Danmörku í framhaldi af Póllandsheimsókninni en það hefur vart farið framhjá neinum að þeirri heimsókn aflýsti Trump eftir að forsætisráðherra Dana tók illa í hugmyndir hans um kaup á Grænlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert