Vígamenn sendir úr landi

AFP

Tyrknesk yfirvöld hafa vísað bandarískum vígamanni úr landi og síðar í vikunni verða sjö þýskir vígamenn sendir úr landi, að sögn upplýsingafulltrúa innanríkisráðuneytis Tyrklands, Ismail Catakli. 

Hann segir að Þjóðverjarnir sjö verði fluttir úr landi 14. nóvember en búið sé að ganga frá ferðagögnum þeirra. Tyrkir hafa gagnrýnt vestræn ríki fyrir að neita að taka við þegnum sínum sem fóru til Sýrlands og Íraks til að berjast með vígasamtökunum Ríki íslams. Í einhverjum tilvikum hafa viðkomandi verið sviptir ríkisborgararétti í heimalandinu. 

Innanríkisráðherra Tyrklands, Suleyman Soylu, sagði í síðustu viku að um 1.200 erlendir vígamenn Ríkis íslams væru í haldi þeirra en af þeim hafi 287 verið handteknir í hernaði Tyrkja í Sýrlandi í síðasta mánuði. „Við munum senda 3, 5, 10 til baka,“ sagði Soylu á föstudag.

Fangelsi í norðurhluta Sýrlands þar sem vígamönnum Ríkis íslams er …
Fangelsi í norðurhluta Sýrlands þar sem vígamönnum Ríkis íslams er haldið. AFP

„Þið losnið ekki undan þeim því við munum senda þá aftur til ykkar. Gerið það við þá sem þið viljið,“ bætti hann við. Enn er óvíst hvort Tyrkjum tekst að senda þá sem hafa verið sviptir ríkisborgararétti til baka. 

Þrátt fyrir að New York-sáttmálinn frá árinu 1961 leggi bann við að gera fólk ríkisfangslaust hafa nokkur ríki, þar á meðal Bretland og Frakkland, ekki lögfest sáttmálann. 

Bresk yfirvöld hafa til að mynda svipt yfir 100 manns ríkisborgararéttindum fyrir að hafa gengið til liðs við vígasamtök erlendis.

Tyrkir undirbúa einnig að senda 11 Frakka sem þeir handtóku í Sýrlandi úr landi. Auk þeirra verða vígamenn frá Danmörku og Írlandi sendir fljótlega til síns heima.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert