Kynþáttaníð enn við lýði í Danmörku

Yfir 15 þúsund manns tóku þátt í mótmælastöðu gegn rasisma í Kaupmannahöfn í dag. Að sögn lögreglu fóru mótmælin friðsamlega fram en mótmælin hófust við sendiráð Bandaríkjanna á Austurbrú og enduðu við torgið fyrir framan Kristjánsborgarhöll.

Mótmælin voru skipulögð af Black Lives Matter í Danmörku en víðs vegar í Evrópu kom fólk saman í dag og í gær til að mótmæla drápinu á Bandaríkjamanninum George Floyd en lögreglumaður hélt hné að hálsi hans í tæpar níu mínútur með þeim afleiðingum að hann lést fyrir tæpum tveimur vikum.

Frá samstöðufundi í Kaupmannahöfn í dag.
Frá samstöðufundi í Kaupmannahöfn í dag. AFP

Fréttamaður danska ríkissjónvarpsins ræddi við Shirley Beckford sem er ein þeirra sem tók þátt í mótmælunum. Hún fagnar því að loksins hafi hvítt fólk vaknað upp við vondan draum og mótmælt rasisma sem hafi verið við lýði í árhundruð. 

„Nú hefur hvítt fólk loksins áttað sig á því hversu slæmt ástandið er í raun og veru,“ segir Shirley Beckford við DR. Hún ólst upp á Fjóni en þegar hún kom ásamt fjölskyldu sinni til Danmerkur árið 1997 voru ekki margir íbúar landsins svartir.  

AFP

Að hennar sögn leið aldrei sú vika sem þeirra beið ekki bréf í pósthólfinu þar sem þau voru kölluð „negrasvín“ og skipað að fara heim til sín. „Þetta er ekki í lagi en þetta er hluti þess sem enn eru í gangi,“ segir Shirley Beckford sem enn, 23 árum síðar, upplifir rasisma á eigin skinni í Danmörku.  

AFP

Hún segir að dóttir hennar sé með afróhár en hún þori ekki að fara með hárið þannig í skólann lengur vegna hatursorðræðu sem hún verði fyrir. Eins sé hlegið að henni og gert grín að hárgreiðslu hennar. Aðrir verði fyrir aðkasti vegna húðlitar, lögunar nefs og svo mætti lengi telja. 

Frétt DR

Frétt Politiken

Víðar var mótmælt í borgum Evrópu í dag. Þúsundir komu saman fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna í Madrid og kallaði mannfjöldinn í kór: Ég næ ekki andanum. Síðustu orð Floyd áður en hann lést.

„Rasismi virðir ekki landamæri,“ segir Leinisa Seemdo, 26 ára túlkur frá Grænhöfðaeyjum. „Í öllum löndum sem ég hef búið í hef ég orðið fyrir mismunun vegna litarháttar.“

Á Piazza del Popolo (torgi fólksins) í Róm voru mótmælin þögul í átta mínútur. Að þögninni lokinni kallaði mannfjöldinn: Ég næ ekki andanum. Morikeba Samate, er 32 ára frá Senegal, en hún er ein þúsunda sem hafa komið til Ítalíu eftir hættulegt ferðalag yfir Miðjarðarhafið. Hún segir lífið allt annað en auðvelt á Ítalíu. Vegna þess fjölda sem hefur flúið til landsins er andstaðan mikil meðal ýmissa heimamanna. 

Eins var mótmælt í Búdapest og mörgum borgum Bretlands sem og víðs vegar í álfunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert