18 milljónir smita og skellt í lás

Sex vikna útgöngubann hefur tekið gildi í Melbourne, næststærstu borg Ástralíu, á sama tíma og staðfest kórónusmit í heiminum eru komin yfir 18 milljónir. Tæplega 700 þúsund manns eru látnir af völdum veirunnar og heimsfaraldurinn geisar harðar en nokkru sinni fyrr. 

Ráðgjafi Hvíta hússins í sóttvörnum varar við því að ástandið þar sé enn að versna en hvergi í heiminum eru smit jafn mörg og í Bandaríkjunum. 

Víða í löndum þar sem dregið hafði úr smitum hefur þeim fjölgað að nýju svo sem í Ástralíu. Yfirvöld í Victoria-ríki hafa gripið til þess ráðs að herða aðgerðir mjög þrátt fyrir að vitað sé hversu alvarlegar afleiðingar það hefur á efnahag ríkisins. 

Má þar nefna útgöngubann í Melbourne frá því klukkan 20 að kvöldi til 5 að morgni næstu sex vikurnar. Jafnframt er öllum fyrirtækjum, sem ekki er nauðsynlegt að halda opnum, gert að loka. 

„Þetta er erfitt ekki síst vegna þess að annars staðar í landinu er fólki heimilt að fara um og njóta nánast eðlilegs lífs,“ segir Tracy Skilling, sem stýrir kaffihúsi í Melbourne. Hún segir að fólk sé afar vonsvikið og langt niðri. „Það eina sem fólk vill er að þessu ljúki.“

Á hverjum degi greinast hundruð nýrra smita í Melbourne en í einhverjum ríkjum Ástralíu eru ekki nein ný smit.

Yfirvöld á Filippseyjum hafa ákveðið að skella nánast í lás í Manila, höfuðborg landsins, næstu tvær vikurnar. Svipaða sögu er að segja víðar í landinu en yfir 100 þúsund COVID-19-smit hafa greinst í landinu. Alls eru íbúar á þeim svæðum þar sem lokun tekur gildi í dag rúmlega 27 milljónir talsins.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur varað við því að áhrifa heimsfaraldursins muni gæta næstu áratugina og allar líkur séu á að hann verði langvarandi. 

Í Íran hefur smitum einnig fjölgað undanfarna daga og ljóst sé að þar sé komin önnur bylgja í hluta landsins.

Ný bylgja smita í Bandaríkjunum

Í Bandaríkjunum eru 4,6 milljónir COVID-19-smita og tæplega 155 þúsund hafa látist þar af völdum veirunnar. Deborah Birx, helsti ráðgjafi Hvíta hússins í COVID-19, segir að í Bandaríkjunum sé skollin á ný bylgja smita. „Það sem við erum að upplifa nú er ólíkt því sem var í mars og apríl,“ segir Birx í viðtali við CNN og segir útbreiðsluna óvenjumikla. 

Kapphlaup stendur yfir varðandi þróun á bóluefni enda virðist fátt vera í boði þangað til það finnst annað en að beita hörðum sóttvarnareglum með tilheyrandi kostnaði hvað varðar efnahag ríkja. Tugmilljónir hafa misst vinnuna í Bandaríkjunum og staðan er svipuð víðast hvar í heiminum. Mótmæli hafa brotist út í nánast öllum heimsálfum og ríkisstjórnir standa frammi fyrir miklum þrýstingi frá samfélaginu. 

Í Berlín hafa þúsundir tekið þátt í mótmælum gegn hertum aðgerðum vegna kórónuveirunnar um helgina. Þar hafa farið fremstir í flokki öfgahægri- og vinstrimenn ásamt þeim sem aðhyllast samsæriskenningar og eru andsnúnir bólusetningum og öðrum forvörnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert