Mótmælendur brutu sér leið inn í utanríkisráðuneytið

Mótmælendur í utanríkisráðuneyti Líbanon.
Mótmælendur í utanríkisráðuneyti Líbanon. AFP

Mótmælendur í Beirút hafa brotið sér leið inn í utanríkisráðuneyti Líbanons og kallað eftir því að mótmælendur komi sér fyrir í öðrum ráðuneytum. Hassan Diab, forsætisráðherra landsins, vill að þingkosningar verði haldnar sem fyrst. 

Hátt í 10.000 mótmælendur hafa safnast saman á götum Beirút í kjölfar gríðarmikilla sprenginga á þriðjudag sem ollu dauða að minnsta kosti 158 manns, og til átaka hefur komið milli mótmælenda og lögreglu. Þá kemur fram á BBC að skothljóð hafi heyrst nálægt Píslarvottatorgi (e. Martyr's Square). 

Nokkrir tugir mótmælenda brenndu myndir af forseta Líbanons, Michel Anoun, og brutu sér leið inn í utanríkisráðuneyti landsins og kölluðu jafnframt eftir því að mótmælendur kæmu sér fyrir í öðrum ráðuneytum. Samkvæmt heimildum BBC eru um 100 mótmælendur í utanríkisráðuneytinu sem stendur, en talsverðar skemmdir urðu á húsnæði ráðuneytisins í sprengingunum á þriðjudag. 

Líbanski Rauði krossinn segir að 110 hafi særst í mótmælunum og um þriðjungur þeirra verið fluttur á sjúkrahús.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert