„Staðan mjög alvarleg“

AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Þýskalandi hafa alvarlegar áhyggjur af fjölgun nýrra kórónuveirusmita þar í landi. Aldrei hafa greinst jafn mörg smit á einum sólarhring þar og í gær. Heilbrigðisráðherrann er meðal smitaðra og er kominn í einangrun.

Fáir eru á ferli í París eftir klukkan 21 og …
Fáir eru á ferli í París eftir klukkan 21 og fylgist lögreglan grannt með því að reglur um útgöngubann séu virtar. AFP

Á Írlandi hafa hertar sóttvarnareglur tekið gildi, sennilega þær hörðustu í Evrópu. Þar er fólki gert að halda sig heima og atvinnulífið hefur nánast skellt í lás. Aðeins matvöruverslanir og apótek eru áfram opin en öðrum verslunum gert að loka.

Barir eru lokaðir og veitingastaðir mega aðeins selja mat í heimsendingu eða til þess að taka með heim. Stórlega hefur verið dregið úr umfangi almenningssamgangna enda ekki fyrir aðra en þá sem eru á undanþágu vegna framlínustarfa eða þurfa að komast í matvöruverslun eða til læknis.

AFP

Fólk má fara út að hreyfa sig svo lengi sem það er innan 5 km frá heimili viðkomandi og stranglega er bannað að fá fólk í heimsókn nema brýna nauðsyn beri til, svo sem vegna veikinda. Börn fá aftur á móti að mæta í skóla en aðrir sitja heima í sex vikur.

Líkt og fram kom á mbl.is í gær varð Spánn fyrsta landið í Evrópu til þess í gær að vera með yfir eina milljón staðfestra Covid-19-smita. Yfir 1,1 milljón er látin af völdum Covid-19 á þessu ári. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að samdrátturinn í ár nemi 4,4%. 

AFP

Yfirmaður Robert Koch-sóttvarnastofnunarinnar í Þýskalandi, Lothar Wieler, segir Þjóðverja standa frammi fyrir grafalvarlegri fjölgun nýrra kórónuveirusmita. Hann segir samt sem áður að enn sé möguleiki á að það takist að hafa hemil á veirunni með kerfisbundnum fyrirmælum um takmarkandi aðgerðir. „En á heildina litið þá er staðan mjög alvarleg,“ segir Wieler. 

Alls voru 11.287 ný smit staðfest í Þýskalandi í gær, um nýtt met er að ræða en fyrra metið er frá því á föstudag er nýju smitin voru rúmlega 7.800 talsins. 

Til þess að stemma stigu við þróuninni hafa yfirvöld hert aðgerðir, svo sem sett á samkomubann og grímuskylda er í gildi á ákveðnum götum í Berlín. Heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn, var greindur með smit í gær og er kominn í einangrun á heimili sínu.

Sjúklingum með Covid-19 fjölgar á sjúkrahúsum í Evrópu.
Sjúklingum með Covid-19 fjölgar á sjúkrahúsum í Evrópu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert