Chauvin fundinn sekur um morðið á Floyd

Fyrrverandi lögreglumaðurinn Derek Chauvin var rétt í þessu fundinn sekur um morðið á George Floyd með því að hafa kropið á hálsi hans í níu mín­út­ur og 29 sekúndur í maí á síðasta ári með þeim af­leiðing­um að Floyd lést.

Kviðdómur komst að þessari niðurstöðu fyrr í kvöld og var hún tilkynnt fyrir skömmu.

Komust kviðdómendur að þeirri niðurstöðu að Chauvin væri sekur um manndráp án ásetnings og um morð af annarri og þriðju gráðu. Kviðdómendur fundu hann því sekan af öllum ákæruliðum.

Chau­vin, sem er hvít­ur karl­maður, sást á mynd­bandi þrýsta hné sínu aft­an á háls Floyd, sem var hand­járnaður, og tjáði hann Chauvin oft að hann næði ekki and­an­um. Floyd hafði verið hand­tek­inn grunaður um að hafa fram­vísað fölsuðum 20 dala seðli. 

Derek Chauvin.
Derek Chauvin. AFP

Morðið vakti mik­inn óhug og reiði um öll Banda­rík­in og varð kveikj­an að risavaxinni mót­mæla­öldu í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum, þar sem fólk kom saman á götum úti og krafðist þess að kerf­is­bundn­ir kynþátta­for­dóm­ar inn­an lög­reglu í Banda­ríkj­un­um yrðu upp­rætt­ir.

Mótmælandi heldur á mynd af Floyd.
Mótmælandi heldur á mynd af Floyd. AFP
mbl.is