CDC hækkar hættustig vegna ferða til Íslands

Bandarísk yfirvöld hafa hækkað hættustig vegna ferða til Íslands.
Bandarísk yfirvöld hafa hækkað hættustig vegna ferða til Íslands. AFP

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) hefur hækkað hættumat vegna ferða til Íslands í kjölfar fjölgunar kórónuveirusmita hér á landi. Stofnunin uppfærði á mánudag (2. ágúst) ferðaráðleggingarvef sinn og við það fór Ísland úr fyrsta hættustigi í þriðja stig, en stigin eru fjögur.

Þegar Ísland var í fyrsta stigi ráðlagði CDC Bandaríkjamönnum sem hygðust ferðast til Íslands að ganga úr skugga um að þeir væru fullbólusettir. Nú hefur bæst við að óbólusettum er ráðlagt að ferðast ekki til Íslands nema af brýnni nauðsyn.

Þegar nýgengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa er á bilinu 100 til 500 á undanförnum 28 dögum og sýnataka er umfangsmikil er hættustigið í þremur. Fari nýgengi smita yfir 500 færist hættustigið í fjóra. Við það er öllum Bandaríkjamönnum ráðlagt að halda sig frá landinu.

Aðeins tvö ríki fóru úr fyrsta hættustigi í þriðja að þessu sinni og var það, auk Íslands, Máritíus.

mbl.is

Bloggað um fréttina