Heimili fólks hafa orðið gosinu að bráð

Um 100 íbúðarhús á La Palma hafa orðið eldgosi á eyjunni að bráð. Hraun og aska spýtist í allar áttir, meðal annars í átt að nærliggjandi byggð, og hraun rennur inn í íbúðahverfi og yfir malbikaða vegi.

Allt að 5 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín enda gripu stjórnvöld á La Palma til allsherjarrýmingar á því svæði sem næst er gosstöðvunum.

Ekki hafa enn borist fréttir af slysum á fólki.

Eldgosið er ansi nálægt íbúabyggð.
Eldgosið er ansi nálægt íbúabyggð. AFP

Óvissuástand

Mikil óvissa ríkir nú á svæðinu og eru stjórnvöld í óða önn við að kortleggja nákvæmlega hvaða hús það eru sem hafa orðið jarðeldunum að bráð.

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, frestaði New York-ferð sinni til þess að heimsækja eyjuna, en hann átti að vera viðstaddur leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um helgina.

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar.
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar. AFP

Til viðbótar við ógn er stafar af hraunflæði gossins má gera ráð fyrir að jarðeldarnir kveiki skógarelda í nærliggjandi gróðurlendi. Ekki er langt síðan skógareldar geisuðu á eynni og myndi það valda gríðarlegri eyðileggingu ef miklir skógareldar kviknuðu.

Uppfært kl. 11:06

Upphaflega kom fram að 20 hús hafi orðið eldgosinu að bráð en nýjustu tölur gera ráð fyrir að um 100 hús séu nú eyðilögð.

mbl.is