Leggja til að ákæra fyrir glæpi gegn mannkyni

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. AFP

Öldungadeildarþingmenn brasilíska þingsins kusu með tillögu um að ákæra Jair Bolsonaro, forseta landsins, fyrir að hafa sinnt kórónuveirufaraldrinum illa í embætti.

Meðal ákæruliða eru ákvæði um glæpi gegn mannkyni. Alls hafa 600 þúsund manns látist af völdum veirunnar í Brasilíu.

Tillögurnar sem brasilíska þingið kaus um verða sendar til ríkissaksóknara, sem Bolsonaro skipaði sjálfur.

Ólíklegt að Bolsonaro verði ákærður

Engan veginn er hægt að slá því föstu að atkvæðagreiðslan í þinginu verði til þess að Bolsonaro verði ákærður, eins og segir í frétt BBC, enda þykir líklegt að ríkissaksóknari í landinu standi með forsetanum.

Tillögurnar að ákærunni útlista hvernig Bolsonaro á að hafa fylgt stefnu í heilbrigðismálum sem gerði það að verkum að veiran breiddist úr svo um munar, undir því yfirskini að ná hjarðónæmi meðal íbúa landsins.

Auk ákæru fyrir glæpi gegn mannkyninu eru í tillögum þingsins átta aðrir ákæruliðir útlistaðir. Þar á meðal eru ákæruliðir er snúa að skjalafalsi og brotum gegn lögum um velferð. Þá er Bolsonaro gefið að sök að hafa misnotað skattfé og ýtt undir dreifingu falsfrétta um faraldurinn.

mbl.is