Kínverjar hefna sín vegna ferðatakmarkanna

Fyrir utan kínverska sendiráðið í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu.
Fyrir utan kínverska sendiráðið í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu. AFP/Anthony Wallace

Yfirvöld í Kína hafa hætt útgáfu skammtíma vegabréfsáritana einstaklinga sem koma frá Suður-Kóreu og Japan. Er ákvörðunin ákveðin hefndaraðgerð fyrir ferðatakmarkanir ríkjanna á ferðamenn frá Kína. 

BBC greinir frá því að vegabréfsáritunum fyrir Suður-Kóreumenn og Japani sem ætla til Kína sem ferðamenn hafi verið hætt.

Yfirvöld í Peking, höfuðborg Kína, segja að ákvörðunin verði í gildi þar til ferðatakmarkanir sem mismuna Kínverjum verði aflétt. 

„Óásættanlegt“ og „óvísindalegt

Í síðustu viku hættu Suður-Kóreumenn að gefa ferðamönnum frá Kína vegabréfsáritun sem kínverska utanríkisráðuneytið telur vera „óásættanlegt“ og „óvísindalegt“.

Utanríkisráðuneyti Suður-Kóreu sagði hins vegar við fréttastofu BBC að takmarkanirnar væru „í samræmi við vísindi og hlutlægar sannanir“.

Japanar heimila ferðamönnum frá Kína að koma til landsins ef þeir framvísa neikvæðu Covid-prófi. 

Þriðjungur smitaður

Að sögn suðurkóresku sóttvarnastofnunarinnar voru um þriðjungur komufarþega frá Kína með virkt Covid-smit áður en takmarkanirnar tóku gildi. 

Kínverskir ferðamenn í Hollandi.
Kínverskir ferðamenn í Hollandi. AFP/Robin van Lonkhuijsen / ANP

Takmarkanirnar þar í landi eiga að gilda til lok mánaðarins til þess að gefa vísindamönnum tíma til að rannsaka ný afbrigði sem koma frá Kína. 

„Það er ekkert gagnsæi eins og er í Kína er kemur að eftirliti með nýjum afbrigðum. Ef nýtt afbrigði kemur frá Kína væri það mjög erfið staða fyrir allan heiminn,“ sagði Kim Woo Joo, prófessor í smitsjúkdómum, við BBC. 

Hann sagði það yrði áfall fyrir suðurkóreska heilbrigðiskerfið ef bylgja af nýju afbrigði myndi herja á ríkið þar sem að nú þegar er mikið álag á kerfinu. 

Eins og er geta einungis lítill hluti kaupsýslumanna og diplómata komið frá Kína til Suður-Kóreu og þurfa þeir að framvísa neikvæðu Covid-prófi. 

mbl.is