Ekki umhverfismat um Svelgsárvirkjun

Svelgsárvirkjun er lítil virkjun.
Svelgsárvirkjun er lítil virkjun. mbl.is/Rax

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að fyrirhuguð virkjun í Svelgsá í Helgafellssveit skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt. Uppsett afl virkjunarinnar er 800 kW.

Það er eignarhaldsfélagið Svelgsá sem áformar að reisa virkjun í ánni, en að félaginu standa eigendur jarðarinnar Hrísa. Þetta er lítil virkjun en til samanburðar má geta þess að uppsett afl Blönduvirkjunar er 150 M.

Í greinargerð Svelgs ehf. til Skipulagsstofnunar kemur fram að fyrir liggi samþykkt deiliskipulag fyrir virkjun með nokkuð annarri tilhögun en nú er áformuð. Sú tilhögun var tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem tók ákvörðun um að hún væri ekki líkleg til að hafa í för með umtalsverð umhverfisáhrif. Ákvörðunin var kærð til umhverfisráðherra af Fuglavernd og eigendum Svelgsár sem er næsta jörð vestan við Hrísa. Kærurnar fjölluðu um annmarka á málsmeðferð, áhrif á staðbundinn fiskistofn, lífríki Svelgsár, gróðurfar, fuglalíf, landslag og hættu á stíflubresti.

Niðurstaða Umhverfisráðuneytisins var að ekki hefðu verið annmarkar á málsmeðferð Skipulagsstofnunar og að ekkert benti til þess að áhrif á mögulega fiskistofna og lífríki í Svelgsá, fuglalíf og gróðurfar yrðu umtalsverð. Jafnframt var það niðurstaða ráðuneytisins að áhrif á landslag og sjónræn áhrif yrðu ekki veruleg.

Í greinargerð Svelgs ehf. kemur fram að virkjunin verði rennslisvirkjun með nær enga miðlun. Vatni úr fjórum kvíslum Svelgsár verði veitt saman með því að stífla kvíslarnar og veita vatninu um niðurgrafnar veitupípur að inntaksstíflu. Frá inntaksstíflu liggi fallpípa niður að stöðvarhúsi. Þaðan verði stuttur frárennslisskurður út í Svelgsá.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar má kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur til 8. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert