Umdeild túlkun kemur í veg fyrir val á Alberti

Albert Guðmundsson var ekki valin í landslið Íslands gegn Englandi …
Albert Guðmundsson var ekki valin í landslið Íslands gegn Englandi vegna reglna í viðbragðsáætlun. Túlkun hennar þykir umdeild að sögn Hauks Hinrikssonar, yfirlögfræðings KSÍ. Samsett mynd

Fjarvera Alberts Guðmundssonar úr landsliði Íslands fyrir vináttuleik liðsins gegn Englandi helgast af þröngri túlkun á óskýrum reglum KSÍ um það hvenær mál eru til meðferðar hjá lögreglu eða ákæruvaldi.

Eins og fram hefur komið var rannsókn á meintu kynferðisbroti Alberts felld niður. Alla jafna er það gert þegar mál eru talin ólíkleg til sakfellingar fyrir dómi.

Niðurfelling málsins var kærð til ríkissaksóknara af lögmanni meints þolanda í málinu.

Í skilningi laganna er Albert laus allra mála, jafnvel þó niðurstaðan hafi verið kærð.

Umdeild túlkun 

Haukur Hinriksson, yfirlögfræðingur KSÍ, segir í samtali við mbl.is að ákvörðun byggi á viðbragðsáætlun sem samþykkt var af stjórn fyrir tveimur árum.

Þar kemur m.a. fram að einstaklingi sé ekki heimilt að spila fyrir landslið á meðan mál tengt honum sé til „meðferðar á rannsóknarstigi eða hjá ákæruvaldi.“

Haukur nefnir þó að þessi túlkun, þ.e. að heimila einstaklinga að spila ekki fyrir hönd lands síns, jafnvel þó málið hafi formlega verið fellt niður, sé umdeild.

Haukur Hinriksson, yfirlögræðingur KSÍ.
Haukur Hinriksson, yfirlögræðingur KSÍ.

„Það er háð túlkun hvenær mál teljast vera til meðferðar eða ekki. Ég er fullmeðvitaður um það að strangt til tekið telja margir málið ekki lengur til meðferðar jafnvel þó niðurfelling hafi verið kærð. En sumir telja hins vegar að málið sé enn til meðferðar hjá viðkomandi,“ segir Haukur.

Reglan sætir endurskoðun 

Hann segir að þessi regla sæti endurskoðun. Nýlega lauk vinnu starfshóps sem gert var að endurskoða þessa reglu sem tengist viðbragðsáætlun sambandsins í slíkum málum.
Að sögn hans voru utanaðkomandi aðilar sem eru sérfræðingar í málaflokknum fengnir til verksins. Allir standa þeir utan knattspyrnusambandsins.

Hins vegar á eftir að fara með málið til umfjöllunar hjá stjórn sambandsins og því ekki hægt að tilgreina um það hverjar tillögur starfshópsins eru að svo stöddu.

„Þar á ýmislegt að koma fram sem túlkar reglurnar mun nánar varðandi þau tilvik sem koma upp,“ segir Haukur. 

Stjórnarfundur er í lok mánaðar og þar til málið hefur fengið umfjöllun verður vísað í eldri túlkun við meðferð mála að sögn Hauks.

Aron ekki valinn á sömu forsendu 

Eitt fordæmi liggur fyrir í sambærilegu máli. Þannig var ákveðið af stjórn að velja ekki Aron Einar Gunnarsson til verkefnis í landsliði fyrir tveimur árum jafnvel þó búið væri að fella niður rannsókn á máli á hendur honum. Sú niðurstaða var kærð til ríkissaksóknara af lögmanni meints fórnarlambs líkt og tilfellið er í máli Alberts. Ríkissaksóknari féllst ekki á kröfu kæranda.

Aron Einar Gunnarsson var ekki valinn í landslið jafnvel þó …
Aron Einar Gunnarsson var ekki valinn í landslið jafnvel þó búið væri að fella niður mál á hendur honum. Niðurstaða um niðurfellingu var kærð. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stjórn hefur á þessum tímapunkti ekkert að vísa í nema eldri viðbragðáætlun og hún er óskýr hvað þetta varðar,“ segir Haukur.

En hver er ástæðan fyrir því að stjórn velur að túlka málið svo þröngt?

„Það var einfaldlega niðurstaða stjórnar í eldra máli sem tengdist túlkun stjórnar á þeim tíma,“ segir Haukur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert