Fiskurinn: Apríl og maí verða stórkostlegir hjá þér

Elsku Fiskurinn minn,

það er búið að vera svo alls konar í kringum þig og þú lætur enn lífið koma þér á óvart. En ef ekkert kemur manni á óvart, þá væri þessi bíómynd lífið nú aldeilis leiðinleg. Þú skalt breiða út faðminn á móti því sem er að gerast hjá þér, hafa engar áhyggjur af veraldlegu drasli því allt endurnýjar sig á árinu. Apríl og maí eru stórmerkilegir mánuðir fyrir þig, þú slítur gamlar og þreytandi tengingar við persónur og leikendur í kringum þig án þess að vera með nokkuð drama.

Þú breytir um stíl næstum því eins og óafvitandi og skoðar svo til hvers er ég að gera þetta eða til hvers er ég að gera hitt? Þú spáir svo mikið í hver útkoman verður og útkoman er að verða þér svo falleg, en þú sérð það ekki fyrr en í kringum fullt tungl í Sporðdreka sem er þann 27. apríl. Þetta verður þá upphafið að svo ótrúlega litríkum tímabilum sem munu skreyta líf þitt allt fram á haustið.

Það er eins og þú gangir á skýjum og gleðihormónarnir séu á fullu í því að hafa gaman. Rómantíkin og ástin kitlar þá sem hafa löngun til að bjóða ástar-cupid inn í líf sitt og margir hefja einhvers konar sambúð á þessu tímabili í haust.

Gamli pirringurinn sem hefur pressað þig að undanförnu er horfinn til síns heima. Fólk sækir í þig eins og mý á mykjuskán og þú hefur sjálfur valið um hvort þú viljir draga þig í hlé frá óstöðvandi dramaröfli í sumum eða ekki, því orð annarra hafa sérstaklega mikil áhrif á sál þína. Þú leggur þegar fram líður góðan grunn að því sem þú ert að stefna að og potar í það fólk sem hefur ekki unnið eins hratt og þú vilt. Þetta gengur vel, því þú ert við stýrið í þessari ferð.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is