Vogin: Geislar af glæsileika og fegurð

Elsku Vogin mín, þín dásamlega pláneta er ástarplánetan mikla Venus, því ástin skiptir þig svo miklu máli. Þú hefur svo mikla útgeislun, glæsileika og fegurð og það er náttúrulega vegna þess að þú ert barn Venusar.

Þú hefur þann einstaka hæfileika að draga að þér fólk, hvort sem þú vilt það eða ekki, vegna þess að þú hefur óvenju fíngerða næmni. En þegar Venus snýst öfugt eða afturábak, þá horfirðu of mikið á mistök sem þú hefur einhverntímann gert. Og það er það eina getur fest þig svo rækilega niður að þú kemst hvorki afturábak né áfram.

Þessvegna er svo mikilvægt núna að þú skiptir um gír og einblínir á ljósið sem er svo sannarlega allt í kringum þig. Og það er sama af hvaða kyni þú ert; þú færð þessa kvenlegu orku. Því það býr smá kona í öllum mönnum í þessu merki og þessvegna er svo gott að tala við þá um allt.

Það hefur verið svo mikið að gerast í kringum þig og þessvegna ertu í mikilli vinnu við að leysa hnútana til þess að finna betri líðan. Þú hefur allt sem þú þarft bara í hjarta þínu og það skiptir ekki máli hvað gerist í kringum þig. Því þú ert að finna leið til þess að sleppa tökum á því sem gerir vitleysuna og til að baða þig í öllu því sólarljósi sem þú getur fundið. Andaðu bara rólega með nefinu og skrifaðu niður hvað og hverju þú hefur áorkað síðustu mánuði. Þá sérðu svart á hvítu hvað þú ert sterk.

Þó að fólki líki ekki allt sem þú gerir og segir, þá er það bara skítkast smáborgarans sem hefur ekki sömu hugsjónir og þú. Stattu við það sem þú ætlar þér að gera, því það er engin hindrun hjá þér, svo frestaðu engu. Þá fer allt svo dásamlega, en þú þarft að þora til að lifa og þú veist nákvæmlega hvað þú þarft að gera. En ef þú framkvæmir ekki missirðu máttinn og þá veistu afhverju þú finnur og hefur verki í líkama og sál, en þtta er sterkur tími svo njóttu hans.

mbl.is