Sporðdrekinn: Þú munt labba í gegnum alla storma

Elsku Sporðdrekinn minn,

það hefur verið svo margt að gerast og þú hefur ofhugsað allt of margt. Þú ert stórbrotinn karakter og vilt öllum vel. En þú skalt aðeins minnka þessa þrjósku við það að standa of oft sterkt á þínum skoðunum. Því þú skalt skoða að lífið er viss hernaður og það er mikilvægt fyrir þig að vita hvar eru hættusvæði og hvar þú átt ekki að stíga niður. Og að finna út við hvern þú átt að tala og hverjum að treysta. Því þá er útkoman betri en þú nokkurn tímann bjóst við.

Þú ert svo tilbúinn að gefa þig allan í starfið sem þú hefur.En það þarf að vera innihaldsríkt og þú þarft að elska það. Það er fólk í kringum þig sem hvetur þig áfram, en þú þarft að skoða hlutina eins vel og þú getur sjálfur.

Þú býrð yfir leyndarmáli sem gæti komið af stað erfiðleikum fyrir aðra, en á þessu tímabili er betra fyrir þig að þegja en að segja.

Þín stærsta lexía núna er að þekkja ástina og að finna hvað er skilyrðislaus ást. Ekki taka óþarfa áhættu þótt þér finnist þig vanti spennu. Þann 23. desember fer lífið að gefa þér að finna betri líðan, frið og styrk. Þú býrð yfir svo mikilli visku og ert svo góður að ráðleggja öðrum. En farðu meira að ráðleggja sjálfum þér eins og þú hjálpar öðrum. Það verður svo gott í tengslum við ungt fólk í kringum þig og allt mun blessast og leysast þar. Peningamálin verða miklu betri en þú bjóst við, það getur verið þér hlotnist eitthvað óvænt eða eitthvað sem þú bjóst við.

Ég dreg spil fyrir þig þar sem þú færð töluna níu, sem er alheimstala og hjálpar til við að passa upp á sjálfan þig og aðra. Hún sýnir líka mynd af því að himnunum er haldið uppi fyrir þig og að þú labbir í gegnum alla storma sem þér eru sendir. Því að lífsins stormar eru ekki vondir, heldur eru þeir komnir til að hreinsa til í kringum þig. Þetta spil þýðir líka að andlegur styrkur þinn sé óendanlega blessaður.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is