„Skref í rétta átt“

Frá leik liðanna í Grindavík í kvöld.
Frá leik liðanna í Grindavík í kvöld. Ljósmynd/Víkurfréttir

Rio Hardy skoraði fyrir Grindavík gegn Stjörnunni í Pepsí-deildinni í knattspyrnu í kvöld en það dugði ekki til því Stjarnan hafði betur 2:1 í Grindavík. 

„Veðrið hafði áhrif á leikinn en það kom jafnt niður á báðum liðum. Við fengum tækifæri til að ná stigi eða stigum út úr leiknum en nýttum þau ekki. Við þurfum að bæta úr því í næsta leik. Við reyndum að skora í fyrri hálfleik og ná forystunni á meðan við vorum með vindinn í bakið en það tókst ekki og við þurftum að elta forskot Stjörnunnar eftir að þær skoruðu í upphafi seinni hálfleiks,“ sagði Hardy en hvasst var í Grindavík í kvöld og rigning í síðari hálfleik. 

Hardy var tvívegis nálægt því að skora í síðari hálfleik fyrir utan að skora mark Grindavíkur og minnka þá muninn í 1:2. Hún fékk dauðafæri í stöðunni 0:2 og skallaði rétt framhjá í stöðunni 1:2. „Við fengum nokkur fín færi og brugðumst vel við eftir að við lentum undir. Á þessu tímabili höfum við sjaldan brugðist vel við þegar við höfum lent undir í leikjum. Það var skref í rétta átt fyrir okkur og einnig jákvætt að við séum að skapa okkur fleiri færi en í mörgum leikjum. En ég hefði átt að skora fleiri mörk,“ sagði Rio Hardy þegar mbl.is ræddi við hana en Grindavík er í 9. sæti deildarinnar og í harðri baráttu um að halda sæti sínu í deildinni. 

mbl.is