„Hópurinn er stór“

KA fagnaði 2:0-sigri gegn Stjörnunni í Garðabæ í kvöld.
KA fagnaði 2:0-sigri gegn Stjörnunni í Garðabæ í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hallgrímur Jónasson fékk nýjan félaga við hlið sér í vörn KA rétt fyrir upphaf leiksins við Stjörnuna í dag, vegna meiðsla, og þrír leikmenn KA fóru meiddir af velli í leiknum. Samt gat Hallgrímur, sem lék í dag að nýju eftir að hafa meiðst í 1. umferð, fagnað 2:0-sigri.

KA er því með sex stig eftir fimm leiki í Pepsi Max-deildinni í fótbolta. Liðið skoraði bæði mörk sín gegn Stjörnunni í dag snemma í seinni hálfleik:

„Okkur leið vel varnarlega. Þeir áttu eitt hættulegt færi þegar þeir skoruðu en boltinn hafði farið út af, en annars fannst mér við með stjórn á hlutunum. Aftur á móti vorum við ekki alveg nógu góðir sóknarlega í fyrri hálfleiknum. Við lagfærðum það aðeins í hálfleik hvernig við létum boltann ganga, og það sást vel hvernig við fórum að fara meira út á kantana og þá gekk þetta mun betur. Við skoruðum tvö flott mörk og mér fannst við eiga sigurinn skilinn gegn mjög góðu Stjörnuliði. Það er eðlilegt að hlutirnir gangi ekki fullkomlega allan leikinn en við erum búnir að fara í gegnum erfitt prógramm og ekki verið að fá þau úrslit sem við vildum,“ segir Hallgrímur.

Hallgrímur Jónasson.
Hallgrímur Jónasson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Eins og fyrr segir hefur reynt á leikmannahóp KA vegna meiðsla sem og auðvitað brotthvarfs Guðjóns Péturs Lýðssonar skömmu fyrir mót. Í dag fóru Elfar Árni Aðalsteinsson, Daníel Hafsteinsson og Andri Fannar Stefánsson allir af velli vegna meiðsla. Enginn þeirra ætti þó að vera lengi frá keppni:

Ættum að vera með fleiri stig

„Við höfum bara einbeitt okkur að því sem við getum haft áhrif á. Við höfum æft vel og litið á frammistöðuna, og fannst við eiga meira skilið út úr leikjunum við FH og Breiðablik. Við vissum að úrslitin myndu fara að detta með okkur og þau gerðu það í dag. Hópurinn er stór, eins og sást í dag þegar við erum með menn meidda og menn fara meiddir af velli en samt vinnum við Stjörnuna 2:0 á útivelli,“ segir Hallgrímur. Haukur Heiðar Hauksson kom á síðustu stundu inn í vörn KA í dag eftir að Callum Williams meiddist í upphitun:

„Það er aldrei óskastaða [að þurfa að gera breytingu rétt fyrir leik] en við erum með mjög flotta breidd í vörninni og eins og sást þá var þetta ekkert vesen,“ segir Hallgrímur, sem er bærilega sáttur með byrjun KA á leiktíðinni:

„Við fengum erfiða dagskrá en mér finnst við hafa staðið okkur ágætlega. Ég held að flestir sem hafa horft á okkar leiki meti það þannig að við ættum að vera með fleiri stig. Við erum með sex stig eftir þessa fyrstu fimm leiki og erum ágætlega sáttir með það, en sáttari með frammistöðuna. Við munum vaxa inn í þetta mót, það er alveg á hreinu.“

mbl.is