„Hann réð ekkert við þennan leik“

Óli Jó var fúll eftir tap Valsmanna í kvöld.
Óli Jó var fúll eftir tap Valsmanna í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Valsmanna, var gagnorður í samtali við blaðamenn eftir leik. Hann var afar ósáttur við spilamennsku sinna manna, sem og dómara leiksins, sem endaði með 3:2 sigri FH á Val á Hlíðarenda í stórleik 16. umferðar Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu.

„Það er svekkelsi að fá ekkert út úr þessum leik. Ég held að við höfum ekki einu sinni átt það skilið. Ég er pínulítið ósáttur við frammistöðu okkar, “ sagði Ólafur.

Spurður nánar út í hvað hann var ósáttur við sagði Ólafur:

„Við bara vorum á lélegu tempói, sköpuðum okkur að ég held ekkert einasta færi. Ég er mjög ósáttur við það,“ sagði Ólafur.

„Það er alltaf fúlt að tapa leik en það er svo sem ekki í fyrsta skipti. Við verðum að rífa okkur upp úr þessu og koma sterkir til baka,“ sagði Ólafur en Valsmenn hafa nú 23 stig í 6. sæti.

Spurður út í dómgæsluna var Ólafur fáorður en dómari leiksins í kvöld dæmdi þrjú víti, tvö Valsmönnum í vil, en Hlíðarendapiltar vildu einnig meina að brotið hefði verið á Hannesi Þór Halldórssyni í aðdraganda sigurmarks Morten Beck.

„Hann réð ekkert við þennan leik,“ sagði Ólafur einfaldlega um dómara leiksins, Sigurð Hjört Þrastarson.

mbl.is