Hversu langt á íþróttahreyfingin að ganga?

Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson hafa ekki verið …
Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson hafa ekki verið í leikmannahópi íslenska karlalandsliðsins undanfarna mánuði. Eggert Jóhannesson

Nokkrir starfshópar á vegum íþróttahreyfingarinnar vinna nú hörðum höndum að því að koma upp verkferlum og skipulagi þegar kemur að ofbeldis- og kynferðisbrotum innan hreyfingarinnar.

Mbl.is greindi frá því í dag að meint ofbeldis- og kynferðisbrot sex leikmanna íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu væru nú til skoðunar hjá Sigurbjörgu Sigurpálsdóttur, samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Málin komu fyrst inn á borð hjá KSÍ eftir að aðgerðahópurinn Öfgar sendi stjórn Knattspyrnusambandsins tölvupóst sem innihélt meðal annars nöfn leikmannanna og dagsetningar yfir meint brot þeirra.

„Það eru fjórir hópar að störfum í þessum málaflokki, innan íþróttahreyfingarinnar, og ég er með formennsku í tveimur þeirra,“ sagði Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar og meðstjórnandi í framkvæmdastjórn ÍSÍ, í samtali við mbl.is.

„Annar hópurinn sem ég held utan um er að skoða verkferla, vinnulag, viðhorf og menningu og er markmið hópsins að koma með tillögur að úrbótum í þessum málaflokki en þessi starfshópur er á vegum KSÍ.

Hinn hópurinn er að vinna fyrir íþróttahreyfinguna í heild sinni og er að skoða öll viðmið. Það er að segja hvað telst nægjanleg tilkynning, í hvaða málum getum við brugðist við, megum við fjarlæga fólk yfir höfuð, í hversu langan tíma þá og á fólk afturkvæmt eftir alvarleg brot?

Þessi síðarnefndi hópur mun reyna að skila tillögum til framkvæmdastjórnar ÍSÍ í ársbyrjun og stjórnin hefur svo tíma til 1. mars 2022 til að búa til og senda frá sér leiðbanandi reglur fyrir hreyfinguna,“ sagði Kolbrún.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, til hægri, verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar og meðstjórnandi …
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, til hægri, verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar og meðstjórnandi í framkvæmdastjórn ÍSÍ. Ljósmynd/Aðsend

Jafn ólík og þau eru mörg

Það er að mörgu að huga hjá starfshópunum og ekki mikill tími til stefnu.

„Þetta er gríðarlega flókin vinna að öllu leyti. Sum málin eru auðvitað þess eðlis að þau eru fljótleyst og krefjast ekki mikilla aðgerða á meðan önnur eru stærri og þurfa að fara í gegnum réttarkefið.

Þessi mál eru jafn ólík og þau eru mörg og við erum sem dæmi með tvo lögfræðinga í starfshópnum því við þurfum að passa okkur sérstaklega á því að við séum ekki að fara langt út fyrir hegningarlögin því þetta þarf auðvitað að vera í takt við lög og reglur í landinu.“

En er það hlutverk íþróttahreyfingarinnar að taka sér stöðu dómstóla í samfélaginu?

„Þetta er ein af þeim spurningum sem við höfum þurft að takast á við og einmitt hversu langt íþróttahreyfingin á að teygja sig í þessum málaflokki, sérstaklega þegar þolendur eru utan íþróttahreyfingarinnar. Á sama tíma viljum við ekki hafa kynferðisofbeldi innan íþróttahreyfingarinnar frekar en annars staðar og við þurfum öll að standa saman til að vinna bug á því.

Við viljum og þurfum að hafa verkfæri til þess að bregðast við því en það þarf líka að bæta dómskerfið okkar því við höfum verið að sjá um 13% sakfellingu í kynferðisbrotamálum hér á landi sem er algjört bull. Við þurfum að gera eitthvað betur, það er alveg klárt,“ bætti Kolbrún við í samtali við mbl.is. 

Kolbeini Sigþórssyni var meinað að taka þátt í landsliðsverkefnum Íslands …
Kolbeini Sigþórssyni var meinað að taka þátt í landsliðsverkefnum Íslands í september af stjórn KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina