Landin gæti misst af úrslitaleikjum EM

Óvíst er að Niklas Landin taki þátt í fleiri leikjum …
Óvíst er að Niklas Landin taki þátt í fleiri leikjum með Dönum á EM í Króatíu. AFP

Markvörðurinn Kevin Møller hefur verið kallaður inn í danska landsliðið í handknattleik karla á Evrópumeistaramótinu í Króatíu. Vel getur farið svo að kollegi hans, Niklas Landin, sem er einn besti markvörður heims, geti ekki tekið þátt í undanúrslitaleik Dana á föstudag eða úrslitaleik um verðlaunasæti á sunnudag. 

Eiginkona Landin er komin á því að fæða barn þeirra hjóna og þess vegna getur farið svo að Landin yfirgefi danska landsliðið í hasti. Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari hefur þar með óskað eftir að Møller komi með næstu flugvél til Zagreb til þess að vera reiðubúinn að hlaupa í skarðið fyrir Landin. 

Møller gekk nýverið til liðs við Barcelona en hann hefur undanfarin ár verið einn markvarða Flensburg í Þýskalandi. Hann er 28 ára gamall og á að baki 15 landsleiki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert