„Það er smá harðlífi í þessu“

Kristján Arason, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í handbolta.
Kristján Arason, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í handbolta. mbl.is/Brynjólfur Löve

„Mér fannst við spila vel í síðasta leik, þó við hefðum klárlega getað nýtt dauðafærin okkar betur, en flæðið í sókninni var miklu betra en í leiknum gegn Serbíu,“ sagði Kristján Arason, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í handknattleik og faðir Gísla Þorgeirs Kristjánssonar, í samtali við mbl.is á Hofbrähaus í München í Þýskalandi í dag.

Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir Ungverjalandi í lokaleik sínum í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München klukkan 19:30 en með sigri fer Ísland með tvö stig inn í milliriðlakeppnina.

„Við fengum helling af færum en við þurfum klárlega að spila okkar allra besta leik ef við ætlum að vinna Ungverjana. Eins og einhver sagði þá er smá harðlífi í þessu og það þarf að losa um stífluna en mér finnst allir hafa verið fastir í 70 prósentunum það sem af er mótinu þannig að við eigum svo sannarlega mikið inni að mínu mati,“ sagði Kristján.

Stekkur ekki á neikvæðu lestina

Hvað þurfum við að gera til þess að stoppa Ungverjana?

„Það getur verið alveg hrikalegt að eiga við svona góða línumenn eins og Bánhidi. Þú þarft að reyna að vera í svipaðri hæð og hann en það er kannski bara í lagi að hann skori sín sjö til átta mörk, eins og hann er vanur að gera, á meðan við stoppum hina leikmennina.

Við megum ekki bakka of mikið á hann og við eigum að geta stoppað skytturnar þeirra því þær eru frekar hægar. Svo þurfum við bara að keyra vel á þá í sókninni og spila þennan hraða bolta sem allir eru einhvern veginn að bíða eftir.“

En hvernig fer leikurinn gegn Ungverjum?

„Við vinnum þessa Ungverja og förum í milliriðla með tvö stig. Ég ætla alls ekki að stökkva á neikvæðu lestina,“ sagði Kristján í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert