„Finnst æðislegt að sjá þetta“ (myndskeið)

Það var stór stund fyrir Frank Lampard þegar hann vann loks sinn fyrsta sigur sem knattspyrnustjóri Chelsea þegar liðið lagði Norwich, 3:2 í þriðju umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu um helgina.

Rætt var um Lampard og Chelsea-liðið á Vellinum hjá Símanum Sport eftir umferðina, en félagið gat ekki eytt neinu í nýja leikmenn í sumar þar sem það er í félagaskiptabanni.

„Lampard getur bara verið virkilega sáttur. Hann er að fá þetta frjálsræði til að nýta ungu leikmenn Chelsea því hann getur ekki keypt leikmenn. Byrjunarlið Chelsea í leiknum er það yngsta síðan 1994. Hann er með hráefni í höndunum og það verður gaman að sjá hvað hann gerir úr því í vetur,“ sagði Magnús Már Einarsson.

Meðal annars var Lampard hrósað fyrir að halda tryggð við framherjann Tammy Abraham sem þakkaði fyrir traustið og skoraði tvö mörk.

„Ótrúlega mikilvægt fyrir hann að komast á blað, því hann getur skorað mörk og er hörkusenter,“ sagði Magnús Már, en athygli vakti að Abraham fagnaði með því að hlaupa beint í faðminn á Lampard.

„Mér finnst æðislegt að sjá þetta,“ sagði Bjarni Þór Viðarsson, en nánar má sjá umræðuna og atvik úr leiknum í meðfylgjandi myndskeiði.

Tammy Abraham hljóp beint og fagnaði með Frank Lampard.
Tammy Abraham hljóp beint og fagnaði með Frank Lampard. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert