Erum tilbúnar fyrir laugardaginn

„Við komum mjög öruggar inn í keppnina og það skilaði sér í góðum árangri. Þetta var alveg ótrúlega gaman,” sagði Valgerður Sigfinnsdóttir, ein liðskvenna landsliðsins í hópfimleikum eftir undankeppnina í dag þar sem íslenska liðið varð efst að stigum og sendi andstæðingum sínum skýr skila boð fyrir úrslitin sem hefjast klukkan 13 á laugardaginn.

„Við getum bætt eitt og annað svo sem lendingar fyrir laugardaginn en það er bara verkefni til að vinna að. Annars held ég að árangurinn hafi verið finn. Okkur leið vel úti á vellinum og ég er viss um að það hafi skilað sér um salinn,” sagði Valgerður sem reiknar með enn  betri árangri hjá landsliðinu á laugardaginn þegar úrslitin fara fram. „Við gerum kröfur til okkar og viljum vera undir pressu og leita stöðugt að framförum þótt við séum alveg ótrúlega góðar. Metnaðurinn er svo sannarlega fyrir hendi,” sagði Valgerður.

Sleit krossband á EM fyrir tveimur árum

Valgerður sleit krossband í hné í trampólínstökku á EM í Reykjavík fyrir tveimur árum og þá í undanúrslitum. Í keppninni í dag stökk hún í fyrsta sinn á móti samskonar stökk og þegar hún slasaðist fyrir tveimur árum. Hún viðurkenndi að það hafi verið smáhnútur í maganum fyrir stökkin í dag.

„Ég viðurkenni að það var örlítill hnútur í maganum að gera alveg ein stökk í keppninni að þessu sinni. En stökkið tókst fullkomlega hjá mér í dag, ég negldi á það og það var ekkert smágaman. Nú er ég alveg búin að loka á þennan kafla í lífinu og sýnt fram á að ég gat komið fullkomlega heil til baka eftir þessi erfiðu meiðsli,” sagði Valgerður og virtist mjög létt.

„Eftir daginn í dag er ljóst að við erum tilbúnar fyrir laugardaginn. Þá verður allt skilið eftir,” sagði Valgerður Sigfinnsdóttir, landsliðskona í hópfimleikum í samtali við mbl.is í Maribor í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert