Heimilisofbeldi eykst þegar England spilar

Herferð NCDV, samtaka gegn heimilisofbeldi, er nokkuð blátt áfram. Heimilisofbeldi …
Herferð NCDV, samtaka gegn heimilisofbeldi, er nokkuð blátt áfram. Heimilisofbeldi eykst um 38% þegar enska liðið tapar. Ljósmynd/Twitter

Heimilisofbeldi í Englandi eykst um 38% þegar enska knattspyrnulandsliðið tapar leikjum sínum og eykst um 26% jafnvel þegar það hefur sigurorð yfir andstæðingum sínum.

Þetta segja helstu samtök þar í landi gegn heimilisofbeldi, sem minna nú á dökkar hliðar íþróttarinnar í þann mund sem England keppir til úrslita á Evrópumótinu í knattspyrnu. 

Hin ýmsu samtök hafa hrundið af stað herferðum þar sem vakin er athygli á þessari sláandi tölfræði. Meðal þess sem helstu samtök segja á samfélagsmiðlum er að „ekki allir hlakki til úrslitaleiksins“ og að „enginn þrái heitar að England vinni en konur“.

Dökka hlið íþróttarinnar

Þá hafa einhver samtök snúið upp á stuðningsmannalag Englendinga frá árinu 1996, Football is Coming Home. Í stað þess að segja að fótboltinn sé á leið heim til Englands, vöggu íþróttarinnar, segir í herferð Refuge-samtakanna að „It is home“, og er þannig minnt á að ofbeldi sem á sér stað inn á enskum heimilum. 

Þá hvatti NHS, heilbrigðiskerfi hins opinbera í Bretlandi, í twitterfærslu til þess að heimilisofbeldi sé gefið rauða spjaldið, í tilefni af viðureign Englendinga og Dana í undanúrslitum Evrópumótsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert