Lék 50 holur án þess að þrípútta

Ragnhildur Kristinsdóttir
Ragnhildur Kristinsdóttir Ljósmynd/seth@golf.is

Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur hefur púttað vel á Íslandsmótinu á Hlíðavelli en mbl.is ræddi við hana í Mosfellsbænum að loknum þriðja keppnisdegi. 

„Staðan er góð og ég hef spilað vel í þrjá daga. Ekkert sérstaklega góð lokahola í dag reyndar en spilaði svo sem fínt golf á hringnum,“ sagði Ragnhildur og vísaði þar til þess að hún þurfti fimm högg á 18. holunni sem er par 3. Var það í fyrsta skipti í mótinu þar sem hún fær verra skor en skolla. 

„Ég spilaði 53 holur í mótinu án þess að fá verra en skolla og spilaði fyrstu 50 holurnar án þess að þrípútta. Þetta hefur því verið fínt mót. Stutta spilið hefur verið traust en ég hef þó ekki verið neitt sérstaklega góð af teig. Hef verið svolítið villt í teighöggunum en hef slegið vel með járnunum og fyrir vikið komið mér í góð færi. Einnig hef ég sett niður góð pútt fyrir pari.“

Kylfingarnir hafa fengið nokkrar útgáfur af íslensku sumarveðri á Íslandsmótinu til þessa. „Það má eiginlega segja að íslenska haustið sé komið. Spáin fyrir morgundaginn er ekkert sérstök og maður þarf þá að halda sér í leik og gera það besta úr þessu. Í dag var þó töluvert hægari vindur en á fimmtudag og föstudag. Ég ákvað því að taka 3-járnið úr pokanum í dag og setti 5-tré í staðinn. Þá fljúga höggin aðeins hærra og maður þarf ekki að halda boltanum eins mikið undir vindinum,“ sagði Ragnhildur Kristinsdóttir í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert