„Í dag vantaði mörkin“

Arna messar yfir mannskapnum í Eyjum í dag.
Arna messar yfir mannskapnum í Eyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Arna Valgerður Erlingsdóttir, þjálfari KA/Þórs var ekki ánægð með vörn og færanýtingu síns liðs í dag er liðið mætti á heimavöll deildar- og bikarmeistara ÍBV í Vestmannaeyjum.

Fyrir leikinn í dag hafði KA/Þór unnið tvo síðustu deildarleiki; útisigur á Fram og heimasigur gegn Aftureldingu. Lokatölur í dag þó 25:16 fyrir ÍBV sem komst aftur á sigurbraut eftir þrjá tapleiki í röð.

Vantaði ekki færin

„Mér fannst sóknarleikurinn fínn á köflum miðað við það að við erum oft í basli við að skora mörk. Í dag vantaði mörkin, ekki færin,“ sagði Arna þegar hún var spurð að því af hverju hennar lið hefði tapað í dag, en Marta Wawrzynkowska átti magnaðan leik í marki ÍBV og varði 56% skota sem rötuðu á mark hennar.

„Hún varði vel, það er erfitt þegar maður er með ungt lið þegar hún fer að verja. Leikmennirnir finna ekki sjálfstraustið og við náðum erfiðlega að opna markareikninginn aftur. Við vorum ragar undir lokin að skjóta á hana.“

Vissum að hún myndi draga vagninn

Sunna Jónsdóttir átti flottan leik í liði ÍBV og þá sérstaklega í fyrri hálfleik, það gekk illa hjá KA/Þór að stöðva hana.

„Sunna var góð í dag en varnarleikurinn okkar var ekki nógu virkur, við höfðum alveg rætt hvernig átti að stöðva Sunnu, við vissum að hún myndi draga vagninn. Við stigum ekki nóg í hana og það var alltof oft sem hún var að skjóta frítt.“

Arna sagði sitt lið ekki þekkt fyrir að skora mörg mörk en það geti yfirleitt spilað góða vörn.

„Þess vegna er markaskorið yfirleitt lágt í okkar leikjum en í dag klikkum við aðeins á báðum endum vallarins.“

Þrátt fyrir að ÍBV séu ríkjandi deildar- og bikarmeistarar þá hefur ekki gengið vel hjá þeim í síðustu leikjum en fannst Örnu vera tækifæri að taka stigin tvö í dag?

„Alveg 100% við ætluðum að vinna hér í dag. Við megum aldrei hætta, við lentum fimm mörkum undir gegn Fram í síðasta leik og náðum að vinna það upp, fyrir okkur skiptir það mestu máli að gefast ekki upp. Mér fannst við ekki gefast upp í dag en þetta gekk ekki hjá okkur.“

Markmiðin ekkert breyst

Það komast bara fjórir leikmenn á blað hjá KA/Þór í dag þangað til að nokkrar mínútur eru eftir þegar Isabella Fraga komst í einhvern gír og skoraði fjögur mörk. Hvað vantaði upp á í því?

„Nýta færin, hornamennirnir okkar eru með 1 mark úr 7 skotum í dag. Ef þær hefðu skorað þá værum við með fleiri markaskorara. Það vita það allir sem spila handbolta að það gerist mjög oft, í dag átti hún góðan leik og við vorum að skjóta illa, næst er nýr leikur og þá núllstillum við okkur,“ sagði Arna spurð út í það hvort þetta hefði mest verið í hausnum á stelpunum þegar þær komust í færi gegn Mörtu í þessum ham.

Hvernig finnst Örnu tímabilið hafa farið af stað og hafa markmið liðsins eitthvað breyst? 

„Markmiðin hafa ekkert breyst, tímabilið hefur farið af stað eins og ég reiknaði með. Síðasta vika var rosalega flott hjá okkur og það hefði verið gott að fylgja því eftir með stigi eða tveimur í dag en við þurfum að halda áfram. Það eru tveir leikir eftir fram að pásu, við ætlum að sækja stig í þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka