Segir öruggt að fjárfesta á Íslandi

Jason Holroyd Whittle, fjárfestir. Hann segir erlenda banka hafa átt …
Jason Holroyd Whittle, fjárfestir. Hann segir erlenda banka hafa átt að vita af áhættunni með að lána fé til Íslands á sínum tíma, segir ákjósanlegt að fjárfesta hér og telur sunnanverða Vestfirði vera fallegasta stað í heimi.

„Aðkomumenn eru oft blindir á hversu flókin vandamál þjóða geta verið, en stundum er gott að fá utanaðkomandi augu til að sjá skóginn fyrir trjánum.“ Svona hefst opið bréf Jason Holroyd Whittle, fjárfestis, sem hann ritar til forsætisráðherra Íslands, en þar útlistar hann nokkur af vandamálum, tækifærum og áskorunum sem Ísland býr við þessa stundina og hann hefur orðið vitni að síðustu fimm árin sem hann hefur verið að fjárfesta og heimsækja Ísland.

Hefur nú þegar fjárfest í sjávarútvegi og fasteignum

Whittle er breskur að uppruna og sjálfstæður fjárfestir. Helstu fjárfestingar hans og fjölskyldu hans hafa verið í orkugeiranum í Asíu, hóteliðnaði og endurvinnslu, en fjölskylda hans er með þeim umsvifameiri í  Hong Kong.  Í dag á hann tæplega helmingshlut í útgerðarfélaginu Stormur Seafood, en auk þess hefur hann fjárfest í fjölda fasteigna ásamt Steindóri Sigurgeirssyni, meðeiganda sínum í Stormi. Meðal þeirra er hús Íslensku óperunnar og Kaffi Reykjavík.

Áttu að vera meðvitaðir um áhættuna

Meðal þess sem Whittle kemur inn á í bréfi sínu er að hann telji fjárfestingar á Íslandi þrátt fyrir allt vera nokkuð öruggar, en að hér þurfi engu að síður að passa upp á ýmis atriði á næstu misserum. Nefnir hann meðal annars að erlendir bankar sem lánuðu þeim íslensku hafi verið meðvitaðir um áhættuna af því og það sama eigi við um eigendur jöklabréfanna.  Þarna hafi menn séð áhættusama gróðavon og farið inn, þrátt fyrir að sjálf stoðin, íslenska ríkið, hafi verið mjög veikburða miðað við umfang bankastarfseminnar.

Hann segir að skjótt sjálfsmorð íslenska hagkerfisins  og ný upprisa hafi verið hárrétt ákvörðun auk þess að láta reyna á Icesave skuldbindingarnar. Segir hann að nú eigi að fara sömu leið með jöklabréfin, finna þurfi leiðir til þess að ekki verði greidd króna af þeim, enda hafi eigendur þeirra átt að vita um áhættuna og almenningur eigi ekki að þurfa að bera þá áhættu.

Fólk telur hann vera glannalegan fjárfesti

Hinar endalausu björgunaraðgerðir segir Whittle að séu leiddar áfram af kröfum stóru bankanna í Evrópu, eins og Deutsche Bank sem vilji allra síst af öllu sjá fleiri þjóðargjaldþrot, heldur koma í veg fyrir endanlegt tap eins lengi og hægt er. Aðgerðirnar haldi lífi í viðkomandi lánastofnunum sem sjálfar eru á barmi gjaldþrots, þótt það þýði að lántakandinn upplifi hægfara og sársaukafullan dauðdaga.

Whittle segir að þegar hann segi fólki erlendis að hann sé að fjárfesta á Íslandi, þá sé hann talinn vera glannalegur.  Fólk telji almennt að Ísland sé sá staður í Evrópu sem síst ætti að leggja peninga sína.  Hann telur aftur á móti að Ísland hafi styrkleika, sem þjóðin geti vel nýtt sér á næstu árum ef stjórnvöld hegði sér á réttan hátt. 

Margt jákvætt hér sem ýtir undir öryggi í fjárfestingum

Meðal annars telur hann upp að Íslendingar hafi gott stjórnarfar, jákvæðan viðskiptajöfnuð og fæðu- og orkuöryggi. Þetta séu lykilþættir að langtíma hagsæld í landinu  og segir hann að jafnvel þótt fólk kvarti gjarnan yfir stjórnmálum hér á landi, þá hafi hann eytt stærstum hluta starfsævi sinnar í Kína, Indlandi og Austur-Evrópu og geti því sannarlega sagt að stjórnvöld hér séu að standa sig sæmilega.

Þá ræðir hann um fiskistjórnunarkerfið og bendir á að þrátt fyrir að aðeins 7000 manns vinni í greininni, þá skili hún 11% af landsframleiðslu og allt að 25% ef tengdar greinar teljast með. Útflutningur vegna fiskveiða borgi svo fyrir um 40% af öllum innflutningi. Segir hann nauðsynlegt að hafa þetta í huga þegar verið sé að huga að breytingum á kerfinu og að vitlaust væri að breyta kerfi sem virkar og flestar þjóðir öfundi Ísland af.

Þurfum að passa að verða ekki næsta Detroit

Þegar kemur að orkuvinnslu og stóriðju segir hann nauðsynlegt fyrir Íslendinga að setja ekki öll egg í eina körfu á næstu áratugum.  Hann nefnir Detroit sem gott dæmi um svæði sem hafi haft of lítinn breytileika og á endanum komist í þrot af þeim sökum.  Áliðnaðurinn sé þegar orðinn of stórt hlutfall útflutningstekna, sé alfarið í erlendri eigu og skili hlutfallslega of litlum tekjum og fáum störfum.

Miklar framfarir hafa verið hérlendis varðandi nettengingu við önnur lönd, en þrátt fyrir það ætti eitt helsta stefnumál nýrrar stjórnar að vera að bæta það samband töluvert að mati Whittle. Segir hann að ef vilji væri til þess að nýta orkuna í gagnaver og upplýsingatækni ættu stjórnvöld að fara til Google eða annarra stórra fyrirtækja og spyrja þá hversu mikið gagnamagn þeir þyrftu til að íhuga að flytja sig hingað. Þegar það væri á hreinu ætti að leggja þann streng, jafnvel þótt að sú fjárfesting myndi ekki ein standa undir sér. Segir hann að með komu stórs fyrirtækis væri aftur á móti búið að gera grunn fyrir önnur fyrirtæki og að aukning í upplýsingatæknigeiranum myndi ein og sér borga þetta upp.

Skilur ekki afhverju ferðamannastraumnum er ekki dreift víðar

Að lokum segist Whittle lengi hafa verið í vandræðum með að skilja áherslur ferðaþjónustunnar hér á landi. Segir hann að eftir að hafa ferðast gegnum flesta hluta Íslands, meðal annars sunnanverða Vestfirði sem hann telji fallegasta svæði sem hann hafi augum litið, þá skilji hann ekki af hverju öll þessi áhersla sé lögð á gullna hringinn, sem honum finnst ekki mikið koma til. „Ég geri ráð fyrir að þetta sé gert viljandi, til þess að halda fólki frá stöðum þar sem Íslendingar vilja fara í frí,“ segir hann, en hann telur að mikil þörf sé á að byggja upp fleiri  staði á Íslandi þannig að ferðamannastraumurinn dreifist meira.

Hann segir að í Hörpu séu þó gífurlegir möguleikar sem megi virkja, hann nefnir að húsið geti komið Íslandi á kortið sem ráðstefnumiðstöð út frá staðsetningu landsins mitt á milli Evrópu og Ameríku.  Ómældir möguleikar geti falist í húsinu sem hægt sé að nýta sér.

Reykjavík aðeins rétt nægjanlega þokkafull

Reykjavík er að hans mati aðeins rétt nægjanlega þokkafull þegar horft er á arkitektúr og að passa þurfi sérstaklega vel upp á þá götumynd sem sé eftir við einungis fáar götur í miðbænum ennþá. Segir hann það þurfi að ganga lengra i að endurskapa „gamla miðbæinn“ sem veki hvað mestu athygli þeirra ferðamanna sem um borgina ganga, skapa þurfi vinalega stemningu í miðju borgarinnar sem dragi að fólk, jafnvel þurfi að rífa mestu arkitektamistökin og byggja nýtt á sumum svæðum.

Whittle varar við að öll eggin séu sett í sömu …
Whittle varar við að öll eggin séu sett í sömu körfuna og að treyst verði um of á áliðnaðinn. Morgunblaðið/Árni Sæberg
Whittle segir sunnanverða Vestfirði vera fallegasta stað í heimi.
Whittle segir sunnanverða Vestfirði vera fallegasta stað í heimi. Árni Sæberg
Að mati Whittle þarf að passa upp á að halda …
Að mati Whittle þarf að passa upp á að halda í það sem eftir sé af gamalli götumynd í Reykjavík. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK