Verði aftur skemmtilegt að fljúga

Ljósmynd/WOW

Markmiðið með því að endurreisa WOW air er að aftur verði skemmtilegt að fljúga að sögn Michele Roosevelt Edw­ards (áður Ballarin), stjórnarformanns USAerospace Associates, en félagið stendur að baki fyrirhugaðri endurreisn flugfélagsins. Stefnt sé að því að bjóða farþegum upp á almennt farrými þar sem gert verði vel við þá.

Fram kemur í umfjöllun vefjarins AFAR að boðið verði þannig upp á matseðla sem settir yrðu saman af kokkinum Roger Wiles. Þar verði meðal annars lögð áhersla á hollustu og unnum matvörum haldið í lágmarki. Einnig er fyrirhugað samstarf við austurrísku kaffihúsakeðjuna Julius Meinl varðandi kaffi og te um borð sem og ítalska ísframleiðandann Sano Gelato. Þá verður boðið upp á íslenskar vörur til sölu um borð eins og Omnom-súkkulaði og lífrænar snyrtivörur frá Soley.

Tækni notuð til að bera kennsl á fólk

Sömuleiðis segir í umfjölluninni að endurreist WOW air ætli að koma sér upp sérstöku farþegarými fyrir alla farþega flugfélagsins, bæði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og á Dulles-flugvelli í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Enn fremur sé hugmyndin að notast við tækni sem ber kennsl á andlit fólks þegar farið er um borð í flugvélar félagsins sem og til þess að koma skilaboðum til farþega um að þeir geti farið um borð. Þá verður farangur merktur þannig að farþegar geti haft uppi á honum í gegnum app.

Enn fremur segir í umfjöllun AFAR að hönnuðurinn Gunnar Hilmarsson hafi verið ráðinn til þess að sjá um einkennisfatnað áhafna fyrir endurreist flugfélag. Þeirri spurningu hvort aftur yrði boðið upp á flug til Íslands frá Bandaríkjunum fyrir 99 dollara, eins og forverinn bauð upp á, var svarað á þá leið að lögð yrði áhersla á að halda fargjöldum lágum og að handfarangur yrði innifalinn í flugfargjaldinu.

Michele Roosevelt Edw­ards, stjórnarformaður USAerospace Associates.
Michele Roosevelt Edw­ards, stjórnarformaður USAerospace Associates. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK