Formlegar viðræður vegna Mílu á miðvikudag

Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Orri Hauksson, forstjóri Símans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrsti formlegi fundurinn á milli Símans og fulltrúa Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um skilyrði vegna sölunnar á dótturfélaginu Mílu verður haldinn á miðvikudaginn. Orri Hauksson, forstjóri Símans, vonast til að viðræðunum ljúki í desember en telur að salan sjálf gangi í gegn í fyrsta lagi eftir fjóra mánuði.

Orri segir undirbúningsviðræður við stjórnvöld hafa farið fram um umrædd skilyrði. Ríkisstjórnin ákvað síðan eftir ábendingu þjóðaröryggisráðs að fá sérfræðinga- og ráðuneytisstjóra Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sem fer með fjarskiptamál, til að funda með Símanum.

„Við ætlum á næstu vikum að klára það. Þetta eru nokkur, mjög skýr markmið sem okkur er ljúft og skylt að verða við,“ segir Orri.

Míla er dótturfélag Símans.
Míla er dótturfélag Símans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjú markmið

Fyrsta markmiðið er að virkir stýribúnaðir á innviðum verði í íslenskri lögsögu. Annað markmiðið, sem er nú þegar í frumvarpi til fjarskiptalaga og stundum er kallað Huawei-ákvæðið, snýst um að hið opinbera geti séð hvaðan búnaðurinn sem er notaður er og hverjir birgjarnir eru. Nefnir Orri að Míla hafi verið að byggja á Ericsson, Cisco og fleiri vestrænum birgjum.

Þriðja markmiðið er að hið opinbera geti á hverjum tíma séð hver endanlegur eigandi er og hvað hann hyggst fyrir varðandi uppbyggingu og framkvæmdir. Orri segir eftirlit á Mílu þegar vera til staðar þegar kemur að áformum en fyrirtækið þarf að láta vita með fyrirvara hvar það hyggst ráðast í uppbyggingu.

„Þetta er vinna sem er í gangi og lítur vel út,“ segir Orri um markmiðin.

Míla rekur víðtækt kopar- og ljósleiðarakerfi. Myndin er úr safni.
Míla rekur víðtækt kopar- og ljósleiðarakerfi. Myndin er úr safni. Ljósmynd/Aðsend

Salan á Sensa tók fjóra mánuði

Spurður hvað allt ferlið varðandi söluna á Mílu gæti tekið langan tíma nefnir hann að í byrjun desember í fyrra hafi Síminn selt mun minna fyrirtæki, dótturfélagið Sensa, til norska tæknifyrirtækisins Crayon fyrir 3,25 milljarða króna. Eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins gengu kaupin í gegn í byrjun apríl á þessu ári, eða um fjórum mánuðum síðar. Hann býst að minnsta kosti við jafnlöngu ferli vegna sölunnar á Mílu.

Spurður nánar út í svokallað Huawei-ákvæði segir Orri það hafa verið komið inn í frumvarpið til fjarskiptalaga löngu áður en viðskiptin vegna Mílu fóru fram og snúist um að Fjarskiptastofa hafi heimild til að setja skilyrði um hvaðan búnaðurinn er. Hann nefnir að fari svo að nýju kaupendurnir, Ardian, ákveða að selja Mílu síðar meir til annarra aðila þá hefur atvinnuvegaráðherra heimild til að banna slíka erlenda fjárfestingu ef íslensk stjórnvöld telja að hún ógni öryggi á Íslandi.

Óvíst hve mikið fer í arðgreiðslur

Við kaupin á Mílu mun Ardian yfirtaka um 20 milljarða skuld Mílu. Eftir stendur hlutafé upp á um 58 milljarða króna sem verður borgað bæði í reiðufé og með skuldabréfi sem Síminn gefur út upp á 15 milljarða króna til nokkurra ára.

Síminn mun nota fjármagnið til greiðslu arðs til hluthafa og til að ljúka við ýmiss konar tækniuppbyggingu sem hefur verið í gangi. „Við fáum aukin fjárráð til að byggja þjónustuinnviðina upp,“ segir Orri og nefnir að samstæða Símans sé orðin 115 ára og að koma þurfi ýmsum gömlum kerfum í framtíðarhæft form.

Ekki liggur fyrir ákvörðun um hversu hátt hlutfall fjármagnsins fer í arðgreiðslur annars vegar og uppbyggingu hins vegar. „Við erum í áætlanagerð núna og svo verður aðalfundur í mars og kannski ganga kaupin ekki í garð fyrr en um það leyti hvort sem er, þannig að við höfum tíma til að finna út úr því,“ greinir hann frá.

Lífeyrissjóðir bæði seljendur og kaupendur

Ardian er í viðræðum við íslenska lífeyrissjóði um að þeir kaupi 20% hlut í Mílu. Orri segir Símann hafa heyrt í einhverjum lífeyrissjóðum og þeir hafi lýst yfir áhuga á kaupunum.

„Lífeyrissjóðirnir eru nú þegar stórir eigendur í Síma-samstæðunni og eru samtals með meirihluta hlutafjár. Þróunin hefur verið að taka þessar virðiskeðjur sem eru samsettar af innviðum og þjónustu og kljúfa þær upp. Mér heyrist á þeim að þeir vilji vera líka í sérhæfðari partinum af þessari samstæðu, þ.e. innviðapartinum. Það má segja að lífeyrissjóðirnir séu bæði seljendur og síðan aftur kaupendur í þessari aðgerð,“ segir Orri.

Mikið af kapítali fari hratt í vinnu

Hann kveðst vera mjög ánægður með söluna á Mílu og nefnir sem dæmi að eftirlitsyfirvöld hafi lengi viljað sitthvort eignarhaldið á Mílu og Símanum, bæði vegna samkeppnismála og til að búa til meiri dýnamík á íslenskum fjarskiptamarkaði. „Við hökum fast í það box og ég held að bæði Síminn og Míla fái meira rými til að starfa á eigin forsendum.“

Orri segir það einnig vera mikla stuðningsyfirlýsingu við íslenska hagkerfið að erlendur sjóður eigi svona stór viðskipti hér á landi til langs tíma. Sömuleiðis sé gott að fá inn nýja aðila með nýja siði og þekkingu. Hann segir takmörk fyrir því hvað Síminn og Míla hafa getað fjárfest hratt í innviðum en núna verður breyting á því. Meðal annars vilja nýju eigendurnir fara mun hraðar í ljósleiðaravæðingu á landsbyggðinni og stuðla þannig að hraðari uppbyggingu í íslenskum fjarskiptum.

„Ísland er mjög gott fjarskiptalega, sérstaklega miðað við að erum mjög fá í stóru landi, sérstaklega á landsbyggðinni. Við skuldum að klára ýmislegt og þeir vilja fara hraðar í það, enda vilja þeir láta mikið af kapítali í vinnu hratt,“ segir Orri.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK