Segir Jón Ásgeir ekki koma að kaupunum

Höfuðstöðvar Vodafone og Sýnar.
Höfuðstöðvar Vodafone og Sýnar. mbl.is/Hari

Félagið Gavia Invest ehf. er nú orðið stærsti hluthafinn í Sýn, sem meðal annars á og rekur vörumerkin Vodafone, Stöð 2, Vísi og Bylgjuna.

Jón Skaftason, fyrirsvarsmaður Gavia, er kvæntur Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, og sonur Kristínar Þorsteinsdóttur, fyrrverandi ritstjóra 365 miðla.

Var hann áður framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá 365 miðlum, en fyrirtækið var þá að miklum meirihluta í eigu Ingibjargar Pálmadóttur. Hún og Jón Ásgeir Jóhannesson hafa verið gift frá árinu 2007.

Vill jákvæðar breytingar á rekstrinum

Jón hef­ur einnig starfað sem fram­kvæmda­stjóri hjá fjár­fest­inga­fé­lag­inu Streng, sem eignaðist meiri­hluta í Skelj­ungi, en meðal stærstu hlut­hafa í Streng eru Ingi­björg Pálma­dótt­ir og fé­lög í henn­ar eigu.

Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson.
Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson.

Aðspurður segir Jón að Jón Ásgeir, sem einnig var áður aðaleigandi 365 miðla, sé ekki tengdur kaupunum nú með neinum hætti.

Hann segir í samtali við mbl.is að félagið ætli að beita sér fyrir jákvæðum breytingum á rekstri fyrirtækisins.

Vilja stjórnarkjör á dagskrá

Spurður hvort Gavia hyggist beita sér í rekstri Sýnar segir Jón: 

„Við höfum skoðanir á félaginu. Eins og staðan er erum við utan stjórnar, en við munum gera kröfu um að boðaður verði hluthafafundur og stjórnarkjör sett á dagskrá. Við munum beita okkur á þeim vettvangi í góðu samstarfi við aðra, og tíminn mun síðan leiða í ljós hvort ekki  hljómgrunnur fyrir okkar hugmyndum innan félagsins.“

Þá segir hann að stjórnin muni ákveða hver taki við af Heiðari Guðjónssyni sem forstjóri Sýnar. Gavia muni ekki koma að þeirri ákvörðun nema í gegnum stjórn fyrirtækisins. 

„Fráfarandi forstjóri hefur unnið gott starf og rekstur félagsins er í öruggum höndum þar til hægt verður að ráða úr málum til frambúðar.“

Sjá mikla möguleika í Sýn

Að sögn Jóns var Gavia búið að meta Sýn sem góðan fjárfestingarkost fyrir nokkru síðan og ákvað því að kaupa í fyrirtækinu og verða þar með stærsti hluthafinn með 15 prósent.

„Undirliggjandi eignir félagsins eru sterkar og þarna eru innviðir, fjölmiðlar og fjarskiptarekstur ásamt fleiru sem við teljum sem sterkar eignir, sem hægt er að vinna mjög vel úr,“ segir Jón.

Næststærsti hluthafinn í Sýn er eins og stendur Gildi lífeyrissjóður, sem á 12,46 prósent, og í þriðja sæti kemur Lífeyrissjóður verslunarmanna sem á 9,25 prósent. 

„Við vonumst til að eiga í frábæru samstarfi við aðra hluthafa,“ tekur Jón fram og bætir við að Gavia hyggist vinna þannig að sem mest verðmæti verði úr eignum félagsins fyrir aðra hluthafa.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK