Lögreglan á Vestfjörðum hefur gefið út ákæru á hendur skipstjóranum á togaranum Júlíusi Geirmundssyni. Hann er ákærður fyrir brot á sjómannalögum eftir að 22 af 25 skipverjum sýktust af Covid-19 á túr í október og veiðum var haldið áfram þrátt fyrir grun um smit um borð.
Greint var frá málinu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.
Þar kom fram að skipstjórinn sé ákærður fyrir brot á 34. grein sjómannalaga.
Þar segir meðal annars: „Ef ástæða er til að ætla að skipverji sé haldinn sjúkdómi sem hætta stafar af fyrir aðra menn á skipinu skal skipstjóri láta flytja sjúklinginn í land ef eigi reynist unnt að verjast smithættu á skipinu.“
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Vestfjarða í janúar.