Herlög sett í Taílandi

Taílenski herinn hefur komið á herlögum í landinu og segja forsvarsmenn hersins að þetta sé gert til þess að vernda lög og rétt í landinu. Ákvörðunin hefur vakið mikla undrun en völd hersins hafa verið aukin til muna. Tilkynnt var um þetta í gærkvöldi.

Í tilkynningu frá bandarískum yfirvöldum kemur fram að herlögin megi einungis gilda tímabundið og ekki draga úr lýðræði í Taílandi.

Stjórnmálakreppa hefur ríkt í Taílandi um nokkurra mánaða skeið og fyrr í mánuðinum var Yingluck Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra Taílands, rekin frá völdum.

Hún á yfir höfði sér fimm ára bann frá stjórnmálum en sérstök nefnd um spillingu, NACC, hefur komist að þeirri niðurstöðu að næg sönnunargögn séu fyrir hendi til að ákæra Shinawatra fyrir embættisglöp og hefur vísað málinu til efri deildar taílenska þingsins. Spillingarmálið varðar greiðslur hins opinbera til hrísgrjónabænda.

 Eldri bróðir Shinawatra, Thaksin, sem gegndi embætti forsætisráðherra frá 2001-2006, býr erlendis en hefur verið dæmdur í fangelsi vegna spillingar.

Stjórnarskrárdómstóll Taílands vék Yingluck úr embætti eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að hún hefði misnotað vald sitt. Leiðtogar hins ríkjandi Puea Thai-flokks Shinawatra, brugðust snarlega við með því að útnefna aðstoðarforsætisráðherra og viðskiptaráðherra og hétu því að efna til kosninga 20. júlí.

Hart hefur verið sótt að stjórnvöldum síðustu misseri og ítrekað efnt til mótmæla á götum Bangkok. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert