Stone fyrir dómara vegna Instagram-færslu

Roger Stone var einn nánasti ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta um …
Roger Stone var einn nánasti ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta um tíma. AFP

Roger Stone, fyrrverandi stjórnmálaráðgjafi Donald Trumps Bandaríkjaforseta, var gert að koma fyrir dómara í dag vegna færslna sem hann birti á samskiptamiðlinum Instagram.  Stone ávítar í færslunni dómarann sem dæma á í máli hans og virðist ógna honum, en Stone var handtekinn fyrr á þessu ári að beiðni Roberts Mu­ell­er, sér­staks sak­sókn­ara banda­rísku al­rík­is­lög­regl­unn­ar FBI.

Ákær­an gegn Stone er í sjö liðum og tengist rann­sókn Muellers á meint­um af­skipt­um Rússa af banda­rísku for­seta­kosn­ing­un­um 2016 og tengslum þeirra við fram­boð Trumps, en hann var m.a. ákærður fyr­ir að gefa út ósann­ar yf­ir­lýs­ing­ar, hindra fram­gang rétt­vís­inn­ar og fyr­ir að reyna að hafa áhrif á framb­urð vitna.

Dómarinn Amy Berman Jackson sagði við Stone í dag  að hann yrði að sýna fram á af hverju færslurnar brytu ekki í bága við þá samþykkt sem hann gekkst undir er hann var látinn laus gegn greiðslu 250.000 dollara tryggingar um að myndi ekki tjá sig um málið.

Stone, sem hefur leyfi til að ferðast til vissra bandarískra borga án þess að fá fyrst heimild réttarins, hefur lýst sig saklausan af öllum ákærum.

Lögfræðingur Stone lagði fram formlega afsökunarbeiðni fyrir réttinum á mánudag vegna Instagram-færslnanna, en þar birti hann mynd af dómaranum að því er virðist við hlið byssusjónauka. Stone eyddi síðar færslunni og birti hana á ný án byssusjónaukans áður en hann eyddi henni svo aftur, að því er Reuters hefur eftir bandarískum fjölmiðlum. Í færslunni hafði Stone sagt Jackson dómara vera „Obama-skipaðan dómara sem vísaði frá Benghazi-ákærum“ gegn Hillary Clinton. Þá sakaði Stone Robert Mueller um að vera leigumorðingja afla í Washington sem vildu völdin í eigin hendur.

Stone birti svo yfirlýsingu á Instagram-síðu sinni þar sem hann sagði myndina ekki vera hugsaða til að ógna dómaranum eða sem misvirðingu við réttinn. Þá sagði hann rangt að byssusjónauki hefði verið á myndinni, heldur hefði verið um að ræða „lógó samtaka“ sem birtist á mörgum myndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina