Sögur fórnarlambanna í Christchurch

Flaggað í hálfa stöng á þingshúsinu í Wellington í Nýja-Sjálandi.
Flaggað í hálfa stöng á þingshúsinu í Wellington í Nýja-Sjálandi. AFP

49 manns létust í árás á tvær moskur í Christchurch í Nýja-Sjálandi á föstudag en nöfn þeirra sem létust hafa ekki öll verið gefin út opinberlega og lögreglan vinnur að því að bera kennsl á þau látnu. Það er þó ljóst að þau látnu komu frá ýmsum löndum og stór hluti þeirra var flóttafólk sem hélt að það hefði fundið öryggi í Nýja-Sjálandi.

Margar fjölskyldur sakna ástvina sinna og bíða í ofvæni eftir fréttum um þá. BBC birti lista af fólki sem lést í árásinni og fólks sem er saknað og gæti hafa fallið í árásinni. Hér er hluti hans.

Mucad Ibrahim, þriggja ára

Mucad hefur ekki sést síðan skotárásin varð. Fjölskylda Mucad hefur leitað hans, án árangurs. Hann var í Deans Avenue moskunni, annarri af moskunum sem ráðist var á, með bróður sínum og föður þeirra en báðir flúðu.

„Við höldum að hann hafi líklega dáið í árásinni og þetta er búið að vera mjög erfitt,” sagði bróðir Ibrahim sem var með honum í moskunni.

Daoud Nabi, 71 árs.

Daoud Nadi lést í árásinni. Hann fæddist í Afganistan en flúði til Nýja-Sjálands á níunda áratugnum til þess að flýja sovéska innrás. Nabi var verkfræðingur sem elskaði antikbíla. Hann var forseti afgansks félags og þekktur hollvinur innflytjenda.

Daoud er sagður hafa fórnað lífi sínu til að koma öðrum til varnar í árásinni. Sonur hans sagði NBC fréttastofunni að Nabi hefði verndað hvern sem er, óháð þjóðerni.

Sayyad Milne, 14 ára.

Sayyad Milne langaði til þess að verða atvinnumaður í fótbolta. Hann fór með móður sinni í Al Noor moskuna á föstudaginn. Hann sást síðast liggjandi á gólfi moskunnar og það blæddi úr neðri líkama hans.

Faðir Sayyad sagði við fjölmiðla í Nýja-Sjálandi að það væri gríðarlega erfitt að takast á við fréttirnar. „Ég man eftir honum sem barninu mínu sem dó næstum því við fæðingu. Hann var hugrakkur lítill maður. Það er svo erfitt að vita af því að hann hafi verið skotinn til bana af einhverjum sem var alveg sama um allt og alla.”

Íbúar í Christchurch minnast fórnarlambanna sem létust í árás á …
Íbúar í Christchurch minnast fórnarlambanna sem létust í árás á tvær moskur í borginni á föstudag. AFP

Naeem Rashid, 50 ára.

Naeem Rashid var upprunalega frá Abbottabad in Pakistan. Hann var kennari í Christchurch. Naeem reyndi að tækla árásarmanninn í miðri árás. Naeem særðist mikið og var færður á spítala þar sem hann lést. Hann hefur verið dásamaður sem hetja fyrir að reyna að stöðva árásarmanninn. Bróðir Naeem sagðist stoltur af bróður sínum.

„Hann var mjög hugrakkur og nokkur vitni segja að hann hafi bjargað lífum með tilraun sinni. Við erum samt ótrúlega sorgmædd, þetta er eins og að missa útlim.”

Talha Rashid, 21 árs.

Talha var elsti sonur Naeem Rashid. Hann var ellefu ára gamall þegar fjölskyldan flutti til Nýja-Sjálands. Það hefur verið staðfest að hann lést í árásinni. Vinir Talha segja að hann hafi nýlega fengið nýja vinnu og hafi vonast til að gifta sig bráðum.

„Ég talaði við Naeem Rasheed fyrir nokkrum dögum og hann sagði mér að hann ætlaði að koma til Pakistan til þess að gifta son sinn. En nú er ég að finna leiðir til þess að færa lík þeirra beggja til Pakistan,” sagði frændi Talha.

Hosne Ara, 42 ára.

Hosne Ara er sögð hafa látist í árásinni. Hún var stödd á kvennasvæði Al Noor moskunnar þegar hún heyrði skothvelli. Eiginmaður hennar er bundinn við hjólastól og hún hraðaði sér á karlasvæðið til þess að bjarga honum en var skotin áður en til þess kom, segir frændi hennar.

Khaled Mustafa, óþekktur aldur.

Khaled flúði stríð í Sýrlandi og flutti til Nýja-Sjálands með fjölskyldu sinni í fyrra. Hópurinn Syrian Solidarity New Zealand segir að hann hafi látist í Al Noor moskunni. Sonur hans á unglingsaldri hefur ekki sést síðan árásin varð og annar sonur hans meiddist illa og undirgekkst aðgerð í kjölfarið.

Amjad Hamid, 57 ára.

Amjad er læknir sem fór í mosku á hverjum föstudegi. Hann hefur ekki sést eftir árásina. Fjölskylda hans telur hann látinn. Eiginkona hans sagði við nýsjálenskan fjölmiðil að þetta væri mikið áfall. „Við komum hingað í leit að betri framtíð fyrir okkur og börnin okkar.“ Hún sagði Amjad mjög ljúfan mann. 

Hjónin fluttu til Nýja-Sjálands fyrir 23 árum síðan og eignuðust tvo syni. „Þetta á að vera friðsælt land en Nýja-Sjáland er nú breytt að eilífu,“ sagði annar sonur Amjad.

Fleiri hafa verið sagðir látnir, þar á meðal Hussain al-Umari, Lilik Abdul Hamid, Sohail Shahid, Syed Jahandad Ali, Syed Areeb Ahmed og Mahboob Haroon. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert