Trump ræddi „Rússagabbið“ við Pútín

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi í dag við Vladimír Pútín Rússlandsforseta …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi í dag við Vladimír Pútín Rússlandsforseta í fyrsta skipti frá því skýrsla Muellers var birt. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi í dag frá því að hann hefði rætt „Rússagabbið“ við Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Voru þetta fyrstu viðræður þeirra Trump og Pútín frá því að skýrsla Robert Muellers, sérstaks saksóknara Bandarísku alríkislögreglunnar FBI um meint afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016 var birt.

Í skýrslunni kemst Mueller að þeirri niðurstöðu að rússnesk stjórnvöld hafi með „yfirgripsmiklum og kerfisbundnum hætti“ haft afskipti af kosningunum.

Líkt og svo oft áður, tjáði Trump sig um málið á Twitter. Sagði Trump þá Pútín hafa talað lengi saman. Símtalið var yfir klukkustunda langt og ræddu leiðtogarnir þar fjölbreytt málefni, m.a. viðskipti, kjarnorku og málefni Úkraínu, Norður-Kóreu og Venesúela að því er Sarah Huckabee Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins greindi fjölmiðlum frá. Samtalið hefði verið eitt lengsta samtal forsetans við annan þjóðhöfðinga, frá því hann tók við embætti.

New York Times segir í umfjöllun sinni um málið að svo virðist sem að Trump, sem Mueller taldi ekki sekan um að hafa átt í samstarfi við Rússa í tengslum við afskipti þeirra af kosningunum, hafi með samtali sínu við Pútín vilja leggja málið í heild sinni til hliðar.

„Líkt og ég hef alltaf sagt, löngu áður en þessar nornaveiðar byrjuðu, þá er það af hinu góða ekki slæma að láta sér semja við Rússland, Kína og alla hina,“ sagði Trump á Twitter.

Forsetinn minntist hins vegar ekki á vaxandi spennu milli rússneskra og bandarískra stjórnvalda vegna Venesúela. Ráðherrar í stjórn Trumps hafa sakað rússnesk stjórnvöld um stuðning við Nicolás Maduro Venesúelaforseta á sama tíma og bandarísk stjórnvöld vinna að því að koma honum frá völdum.

Trump hafði heldur ekki á orði hvort að hann hefði varað Pútín við því að rússneskir ráðamenn reyndu að endurtaka leikinn frá 2016 með því að reyna að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar 2020, en tilhugsunin um það veldur mörgum ráðgjöfum forsetans miklum áhyggjum að sögn blaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert