Nýtur stuðnings þrátt fyrir tengsl við Epstein

Jes Staley, forstjóri Barklays.
Jes Staley, forstjóri Barklays. AFP

Breski bankinn Barklays hefur lýst yfir fullum stuðningi við forstjóra sinn Jes Staley vegna rannsóknar á tengslum hans við barnaníðinginn Jeffrey Epstein.

Byggt á þeim upplýsingum sem liggja fyrir „telur stjórnin að herra Staley hafi verið nægilega hreinskilinn við fyrirtækið vegna eðlis og umfangs sambands hans við herra Epstein“, sagði í yfirlýsingu Barklays eftir að greint var frá rannsókn breskrar eftirlitsstofnunar og enska seðlabankans á sambandi þeirra.

Í yfirlýsingunni kemur fram að Staley njóti fulls stuðnings stjórnarinnar og að hún mæli einróma með því að hann verði endurkjörinn sem forstjóri á næsta aðalfundi 7. maí.

Einnig kemur fram að bankinn muni veita fullan stuðning vegna rannsóknarinnar.

Auðkýfingurinn og barnaníðingurinn Jeffrey Epstein sem lést í fyrra.
Auðkýfingurinn og barnaníðingurinn Jeffrey Epstein sem lést í fyrra. AFP

Sér eftir sambandinu við Epstein

Staley segist síðast hafa verið í samskiptum við Epstein síðari helming ársins 2015, sjö árum eftir að Epstein var dæmdur fyrir kynferðisbrot.

„Eftir á að hyggja, miðað við það sem við vitum núna, sé ég mjög eftir því að hafa verið í samskiptum við Jeffrey,“ sagði Staley en samband þeirra var viðskiptalegs eðlis og hófst árið 2000. Þá var Staley yfirmaður einkabankans JP Morgan þar sem Epstein var viðskiptavinur.

Eftir að fregnir bárust af rannsókninni á sambandi Staley og Epstein lækkuðu hlutabréf í Barklays um 2,9 prósent.

mbl.is