Helmingur rússneskra hersveita í árásarstöðu

Gervihnattamynd af tjöldum rússneskra herliða og hersjúkrahúsi í Novoozernoye á …
Gervihnattamynd af tjöldum rússneskra herliða og hersjúkrahúsi í Novoozernoye á Krímskaga. AFP

Nærri helmingur rússneskra hersveita í grennd við Úkraínu er í árásarstöðu, samkvæmt nýjasta mati embættismanns í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Fjöldi rússneskra herfylkja við landamærin er nú áætlaður á bilinu 120-125 talsins. Hvert herfylki samanstendur vanalega af um þúsund hermönnum, að því er fréttastofa CNN greinir frá.

Sagði embættismaðurinn við CNN-fréttastöðina að herlið rússneska hersins færðist sífellt nær landamærum Úkraínu og að á síðustu 48 klukkustundum hafi um 40-50% af þeim herfylkjum sem nú eru við landamærin tekið upp árásarstöðu. 

Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, ritaði í kvöld á Twitter-síðu sína að heimildir sínar hermdu að 125 rússnesk herfylki umkringdu nú Úkraínu, en það næmi um 3/4 af öllum rússneska hernum. Sú staðreynd ýtti undir það mat að efna ætti til stórstyrjaldar.

Embættismaðurinn sagði við CNN-stöðina að á sama tíma og herfylki Rússa séu að koma sér í árásarstöðu sé nú hafin herferð þeirra til að grafa undan stjórnvöldum í Kænugarði. Feli hún m.a. í sér að Rússar saka nú Úkraínumenn um þjóðarmorð í Donbass-héruðunum, auk þess sem að Rússar stundi aðgerðir undir fölsku flaggi til þess að geta kennt Úkraínumönnum um.

Meðal þeirra má nefna að í dag sprakk herbíll í grennd við stjórnarráðshúsið í borginni Donetsk í austurhluta Úkraínu. Anton Geraschencko, ráðgjafi innanríkisráðherra Úkraínu sagði sprenginguna sviðsetta og að tilgangurinn með henni hafi verið að ögra.

Skipulögðu brottflutning óbreyttra borgara 

Þá varð önnur stór sprenging í borginni Luhansk, sem er á valdi rússneskra aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu í kvöld.

Fyrr í dag skipulögðu stjórnvöld í borgunum Donetsk og Luhansk, tveimur sjálfstjórnarsvæðum í austurhluta Úkraínu sem stjórnað er af aðskilnaðarsinnum með stuðningi Rússa, brottflutning óbreyttra borgara til Rússlands.

Rússar lofuðu að hver flóttamaður fengi 10.000 rúblur, jafnvirði rúmlega 160 þúsund íslenskra króna, við komuna til bæjarins Rostov í Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert