Litlar hömlur á þyrluflugi í friðlandi

Litlar takmarkanir virðast vera á þyrluflugi að náttúruperlum í friðlandi.
Litlar takmarkanir virðast vera á þyrluflugi að náttúruperlum í friðlandi. Samsett mynd

Athygli hefur vakið að þrátt fyrir að drónaflug sé bannað við fossinn Dynjanda, þá eru litlar hömlur á umferð þyrlna á svæðinu. Sömuleiðis mega skemmtiferðaskip liggja fyrir akkeri í friðlandi.

Sigrún Ágústsdóttir, forstóri Umhverfisstofnunar, segir aðeins fáa staði háða sérstökum takmörkunum, en það séu friðlandið á Hornströndum og svo eyjarnar Surtsey og Eldey, sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

Spurning um hversu strangar reglurnar eru

„Það er kveðið á um það í stjórnar- og verndaráætlun fyrir Dynjanda að þyrlur og loftför skulu ekki valda truflun. Það er bæði verið að hugsa um fólk og dýralíf. Þetta er ávarpað með þeim hætti. Svo er það spurning hversu strangar reglurnar eru.“

Margrét Hrönn Hall­munds­dóttir fornleifafræðingur vakti athygli á tíðri þyrluumferð af einu skemmtiferðarskipi í friðlandinu í Arnarfirði.

„Af þessu er ófriður í friðlandinu bæði fyrir gestina og fuglalífið. Þetta er alveg fáránlegt. Ég vinn hjá Náttúrustofu, þótt ég sé fornleifafræðingur, þá vinnum við við að telja fugla og þetta kemur mjög miklu róti á fuglalíf. Krían liggur enn þá á og það verður allt vitlaust í fuglalífinu þegar þyrlur koma svona nærri.“

Boltinn hjá flugmálayfirvöldum

Greina má á máli forstjóra Umhverfisstofnunar að boltinn sé hjá flugmálayfirvöldum þegar kemur að þyrluflugi. „Við höfum oft rætt við flugmálayfirvöld. Þau hafa sett inn tilmæli í flugmálahandbók. Þar eru tilmæli um að trufla ekki að óþörfu fólk og dýralíf. Þetta hefur verið til skoðunar og verður þar áfram.“

Erfitt er að greina hver hefur eftirlit með umferð þyrlna á viðkvæmum svæðum. Sigrún segir: „Ef ekki er farið eftir reglum um loftför þá fylgja samgönguyfirvöld því eftir.“

Hún segir landverði vera starfandi á friðlýstum svæðum og það sé þeirra að fylgjast með umgengni inn í friðlandi.

„Brot á reglum getur orðið lögreglumál. Á friðlýstum svæðum er landvarsla, sem fylgja reglum eftir. Það getur komið til þess að vísa málum til lögreglu, þótt manni þyki slíkt aldrei ánægjulegt.“

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.
Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar. mbl.is/Hákon

Ónæði og hætta en lítill ávinningur

Margrét Hrönn telur fleiri spurningum ósvarað varðandi komu skemmtiferðaskipa inn í friðland.

„Hvað gerist ef eitthvað kemur fyrir? Ef svona skip með milljóna lítra af olíu fer að leka þá er enginn búnaður til að bregðast við slíku á svæðinu.“

Hún telur ávinninginn af svona komum ákaflega takmarkaðan og lítið gagnast ferðaþjónustu í landi, sem getur sinnt rútuferðum og leiðsögn eftir atvikum. Þegar farþegar eru ferjaðir beint á áfangastað í þyrlum verður ávinningurinn lítill í landi.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, segist ekki hafa orðið vör við kvartanir eða neikvæða umræðu tengda komu skemmtiferðaskipa í sveitarfélaginu. Hún segir skemmtiferðaskip hafa lagst að á Patreksfirði og að það hafi alltaf gengið vel.

Þurfum að finna jafnvægið

Forstjóri Umhverfisstofnunar segir eðlilegt að mikið sé leitað með álitamál til stofnunarinnar á svo miklu ferðamannasumri.

„Við þurfum að standa vörð um náttúruna, vegna þess að náttúran er aðdráttarafl ferðamanna til Íslands. Þess vegna verðum við að fara varlega þegar kemur að farartækjum sem hafa svona mikla afkastagetu, eins og skemmtiferðaskip og þyrlur. Þau eru ágengari en önnur farartæki. Við þurfum að finna jafnvægið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert