Andlát: Sigurbergur Sveinsson kaupmaður

Sigurbergur Sveinsson kaupmaður í Fjarðarkaupum lést á Landspítalanum – Háskólasjúkrahúsi 12. nóvember síðastliðinn, 90 ára að aldri. Sigurbergur var fæddur 15. apríl 1933 í Hafnarfirði, sonur Sveins Þorbergssonar og Jónínu Bjargar Guðlaugsdóttur. Frá 6 ára til 15 ára aldurs ólst hann upp að Húsum í Selárdal hjá hjónunum Ólafi Waage og Ingibjörgu Þórðardóttur.

Hann lauk landsprófi frá Flensborgarskóla 1952, stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1955 og útskrifaðist viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1962. Árið 1955 hóf Sigurbergur störf hjá Slökkviliði Keflavíkurflugvallar og var aðstoðarslökkviliðsstjóri árið 1968 þegar hann hætti.

Hann rak eigið bókhaldsfyrirtæki þar til hann stofnaði verslunina Fjarðarkaup ásamt eiginkonu sinni Ingibjörgu Gísladóttur og hjónunum Bjarna Blomsterberg og Valgerði Jónsdóttur árið 1973. Sigurbergur og Ingibjörg tóku alfarið við rekstrinum árið 1993 ásamt fjölskyldu sinni.

Sigurbergur hafði mikinn áhuga á íþróttum, var einn af stofnendum Golfklúbbsins Keilis, stuðningsmaður Knattspyrnufélagsins Hauka, lék borðtennis, stundaði stangaveiði og var góður skákmaður. Hann var félagi í Kiwanisklúbbnum Eldborg í Hafnarfirði og studdi Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og fleiri félög í heimabyggð sinni. Þá var hann áhugamaður um varðveislu kirkjunnar í Selárdal. Sigurbergur hafði mikla ánægju af lestri góðra bóka og var fróðleiksfús enda fjölfróður og minnugur.

Eiginkona Sigurbergs var Ingibjörg Gísladóttir en þau kynntust árið 1952. Hún lést árið 2009. Börn þeirra eru Hjördís, Rósa, Sveinn og Gísli, barnabörnin og barnabarnabörnin eru 24 talsins. Eftirlifandi sambýliskona hans er Kolbrún Svavarsdóttir.

Útför Sigurbergs fer fram frá Víðistaðakirkju miðvikudaginn 22. nóvember kl. 15.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert