Er EM-draumurinn úti?

Strákarnir okkar ætla sér á þriðja stórmótið í röð og …
Strákarnir okkar ætla sér á þriðja stórmótið í röð og svekkjandi tap gegn heimsmeisturum Frakka breytir engu um það. mbl.is/Eggert

Nei, er stutta og rétta svarið við þessari fyrirsögn. Úrslit kvöldsins í H-riðli undankeppni EM karla í fótbolta voru Íslandi í óhag en draumurinn lifir.

Ísland er nú sex stigum á eftir Frakklandi og Tyrklandi, í 3. sæti riðilsins, en tvö efstu liðin komast á EM næsta sumar. Frakkland og Tyrkland mætast á mánudagskvöld og ef Frakkland vinnur ekki þann leik er staða Íslands orðin afleit hvað varðar möguleikann á að komast upp úr riðlinum. Liðið á hins vegar alltaf inni varaleið í gegnum umspil.

Svona eru leikir Íslands, Tyrklands og Frakklands í síðustu þremur umferðunum:

14. október
Frakkland - Tyrkland
Ísland - Andorra

14. nóvember
Tyrkland - Ísland
Frakkland - Moldóva

17. nóvember
Albanía - Frakkland
Andorra - Tyrkland
Moldóva - Ísland

Ef Frakkland og Tyrkland gera jafntefli verða þau með fjögurra stiga forskot á Ísland, jafnvel þó að Ísland vinni Andorra á sama tíma á mánudag. Þá myndi Frökkum duga að vinna Moldóvu á heimavelli eða Albaníu á útivelli til að komast á EM, og Tyrkjum dygði að vinna Andorra í lokaumferðinni jafnvel þó að liðið tapaði gegn Íslandi í næstsíðustu umferð.

Ef Tyrkland vinnur Frakkland þarf Ísland að treysta á að Frakkland fái bara eitt stig úr leikjum við Moldóvu og Albaníu, eða að Tyrkland tapi bæði gegn Íslandi og Andorra, auk þess sem Ísland þarf auðvitað að vinna Andorra og Moldóvu.

Ef Frakkland vinnur Tyrkland eru möguleikar Íslands mun betri en ella. Þá væri liðið aftur með örlögin í sínum höndum, þyrfti ekki að treysta á önnur úrslit en þyrfti að vinna Andorra, Tyrkland og Moldóvu.

Sjá nánar fyrir neðan myndina.

Sigur gegn Frökkum eða tap hjá Tyrkjum gegn Albönum í …
Sigur gegn Frökkum eða tap hjá Tyrkjum gegn Albönum í kvöld hefði hjálpað íslenska liðinu mikið. Nú er alla vega ljóst að liðið mun þurfa að vinna í Tyrklandi til að eiga einhverja von um að komast upp úr riðlinum. mbl.is/Eggert

Varaleiðin felst í umspili

Nái Ísland ekki 1. eða 2. sæti riðilsins mun liðið að öllum líkindum fara í fjögurra liða umspil í lok mars, um eitt laust sæti á EM. Sá árangur að hafa komist í A-deild Þjóðadeildar ræður þessu. Fjögurra liða umspil um sæti á EM er í boði fyrir hverja deild Þjóðadeildar en ljóst er að langflest af liðunum tólf úr A-deildinni komast beint á EM í gegnum undankeppnina og þurfa ekki að fara í umspil. Þá er fyllt í A-deildarumspilið með liðum úr neðri deildum Þjóðadeildarinnar.

Eins og staðan er núna í undankeppninni myndi Ísland fara í umspil með Sviss og tveimur af þessum þjóðum: Búlgaríu, Ísrael, Ungverjalandi og Rúmeníu. Dregið yrði um hvaða tvær þjóðir það yrðu. Ísland myndi mæta annarri þeirra í undanúrslitaleik á heimavelli (ef aðstæður á Laugardalsvelli leyfa á þeim árstíma) og svo hugsanlega Sviss í úrslitaleik (dregið yrði um hvort liðið fengi heimaleik). Þetta gæti þó breyst, til dæmis ef Sviss kemst upp úr D-riðli en liðið mætir Danmörku í mikilvægum leik á morgun.

Evrópumótið hefst 12. júní. Verða Arnór Sigurðsson og félagar þar?
Evrópumótið hefst 12. júní. Verða Arnór Sigurðsson og félagar þar? mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina