Keflavík: Sterkari og með spennandi framherja

Rúnar Þór Sigurgeirsson hefur látið til sín taka í Keflavíkurliðinu …
Rúnar Þór Sigurgeirsson hefur látið til sín taka í Keflavíkurliðinu undanfarin tvö ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Keflvíkingar hefja sitt 53. tímabil í efstu deild Íslandsmótsins og það fyrsta í þrjú ár þegar liðið mætir Víkingi í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla, Pepsi Max-deildarinnar, á Víkingsvellinum klukkan 19.15 í kvöld.

Keflvíkingar urðu fjórum sinnum Íslandsmeistarar á árunum 1964 til 1973 en besti árangur þeirra á þessari öld er annað sætið árið 2008. Þeir hafa einnig orðið fjórum sinnum bikarmeistarar, fyrst 1975 og síðast árið 2006.

Heimavöllur: Nettóvöllurinn (Keflavíkurvöllur) – gras.
Þjálfarar: Eysteinn Hauksson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Fyrirliði: Frans Elvarsson.
Leikjahæstur í efstu deild: Guðmundur Steinarsson 244.
Markahæstir í efstu deild: Guðmundur Steinarsson 81.

Leikmannahópur Keflavíkur keppnistímabilið 2021:

MARKVERÐIR:
1 Sindri Kristinn Ólafsson
21 Helgi Hermannsson

VARNARMENN:
2 Ísak Óli Ólafsson
4 Nacho Heras
5 Magnús Þór Magnússon
16 Sindri Þór Guðmundsson
22 Ástbjörn Þórðarson
24 Rúnar Þór Sigurgeirsson

MIÐJUMENN:
7 Davíð Snær Jóhannsson
14 Dagur Ingi Valsson
25 Frans Elvarsson
28 Ingimundur Aron Guðnason

SÓKNARMENN:
8 Ari Steinn Guðmundsson
9 Adam Árni Róbertsson
10 Kian Williams
11 Helgi Þór Jónsson
19 Gunnólfur Gunnólfsson
20 Christian Volesky
23 Joey Gibbs
30 Marley Blair
77 Bogi Björn Guðnason
98 Oliver Kelaart

Keflvíkingar unnu ekki leik síðast þegar þeir léku í efstu deild, árið 2018, en allt bendir til þess að þeir mæti töluvert sterkari til leiks að þessu sinni.

Sindri Kristinn Ólafsson ver mark Keflvíkinga eins og undanfarin ár.
Sindri Kristinn Ólafsson ver mark Keflvíkinga eins og undanfarin ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eysteinn Hauksson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfa liðið áfram. Keflavík vann 1. deildina í fyrra, var með 43 stig en Leiknir og Fram voru með 42 þegar mótinu var hætt í október. Þótt litlu hafi munað átti Keflavík leik til góða, hafði aðeins tapað tveimur leikjum og var með 57 mörk í 19 leikjum, eða þrjú að meðaltali í leik.

Keflvíkingar tefla fram öllum lykilmönnum sínum frá síðasta tímabili og hafa bætt fimm leikmönnum í hópinn. Miðvörðurinn Ísak Óli Ólafsson snýr aftur heim sem lánsmaður frá SønderjyskE og styrkir örugglega varnarleik liðsins.

Bakvörðurinn Ástbjörn Þórðarson, sem lék með Gróttu í fyrra, kemur frá KR, og þrír nýir erlendir leikmenn bætast við. Miðjumaðurinn Marley Blair, 21 árs Englendingur sem ólst upp hjá Liverpool og Burnley, bandaríski framherjinn Christian Volesky sem hefur leikið um árabil í B-deildinni í heimalandi sínu og ástralski framherjinn Oliver Kelaart sem lék með Kormáki/Hvöt í 4. deildinni síðasta sumar.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Eysteinn Hauksson þjálfa Keflvíkinga.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Eysteinn Hauksson þjálfa Keflvíkinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Joey Gibbs, 28 ára Ástrali, er afar spennandi leikmaður hjá Keflavík. Hann varð langmarkahæstur í 1. deild í fyrra með 21 mark í 19 leikjum og sýndi styrk sinn með því að skora þrennu gegn Víkingi í átta liða úrslitum Lengjubikarsins í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert