Ten Hag reiknar með að stýra United áfram

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United.
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United. AFP/Oli Scarff

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, gefur lítið fyrir fregnir um að honum verði sagt upp störfum burtséð frá því hvort liðið verði bikarmeistari í dag eður ei.

The Guardian greindi frá því í gær að ákvörðun hafi verið tekin innan félagsins um að láta ten Hag taka pokann sinn, óháð því hvernig bikarúrslitaleikurinn gegn Manchester City fer í dag.

Man. United hafnaði í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sem er versti árangur liðsins í rúmlega þriggja áratuga sögu deildarinnar.

Vilja byggja upp félagið með mér

Í samtali við hollenska miðilinn Voetbal International sagði ten Hag að fyrirtækið INEOS, sem á 27,7 prósent hlut í Man. United og stýrir öllum knattspyrnutengdum málum hjá félaginu, hafi látið í veðri vaka að vilji sé fyrir hendi að halda samstarfinu áfram.

„INEOS hefur sagt mér að þeir vilji breyta öllu og byggja upp félagið að nýju með mér. Þetta sögðu þeir beint við mig,“ sagði ten Hag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert