Telur Ferrarivænginn ólöglegan

Sebastian Vettel á hinum umdeilda Ferrari í Mónakó.
Sebastian Vettel á hinum umdeilda Ferrari í Mónakó. AFP

Ekki er ein báran stök í klögumálum formúlunnar um þessar mundir en nú hefur afturvængur Ferraribílsins komist undir smásjána.

Fyrr á vertíðinni varð Ferrari að fjarlægja baksýnisspegla af hjálmhlíf ökumanna þar sem þeir þóttu þannig úr garði gerðir að þeir bættu loftafl bílsins. Þá lék og grunur um að forþjöppur Ferraribílsis brenndu olíu til aflaukningar og loks sætti svonefndur „tvírafgeymir“ bílsins ítarlegri rannsókn tæknimanna Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) í Mónakóu. 

Ferrari fékk grænt ljós á rafgeyminn í furstadæminu en af hálfu FIA hefur verið sagt að rannsaka verði rafgeymana betur fyrir Kanadakappaksturinn í Montreal.

Þá er afturvængur Ferraribílsins það nýjasta sem grunsamlegur þykir. Að sögn bílaritsins
Auto Motor und Sport sýnist forsvarsmönnum DRS-flipinn opnast meira en þá 6,5 sentímetra sem leyfilegt er að hámarki.

Verður bíllinn því væntanlega eina ferðina enn tekinn til lögmætisskoðunar.

mbl.is