Ferrari með uppfærslu í vél

Sebastian Vettel á Ferrarifáknum í Bakú.
Sebastian Vettel á Ferrarifáknum í Bakú. AFP

Ferraristjórinn Mattia Binotto hefur staðfest að liðið mæti til leiks í Barcelona á Spáni með uppfærslur í aflrás keppnisbílanna.

Upphaflega stóð til að gera breytingarnar í kanadíska kappakstrinum í Montreal en nú hefur Ferrarii ákveðið að flýta þeim í þeirri von að með þeim megi stöðva sigurgöngu Mercedesliðsins það sem af er ári.

Silfurörvar Mercedes hafa unnið öll fjögur fyrstu mótin tvöfalt en Binotto segir bílþróunina lykilinn að því að draga Mercedes uppi. „Við erum sem stendur á eftir þeim og því verður að breyta. Lykillinn að því liggur í bílþróuninni,“ segir Binotto.

Ferrari hefur í mótum ársins sýnt að svo virðist sem bílar þess séu hraðskreiðari á löngum beinum köflum en bílar Mercedes.  Í Barcelona munu loftaflsfletir yfirbyggingarinnar taka breytingum og ný og öflugri vél verður sett í bílana. Það var hún sem upphaflega átti ekki að taka í notkun fyrr en í Montreal.

Leggur Ferrari allt í sölurnar til að draga á Mercedes en í því sambandi tók það í notkun loftaflsnýjungar í yfirbyggingunni í síðasta móti, í Bakú. Ofan á allt þetta mun svo Shell mæta til leiks með nýjar smurolíublöndur fyrir nýju Ferrarivélina í Barcelona.

mbl.is