Dramatík, spenna og brons á EM

Bronsverðlaunaliðið í blönduðum flokki á EM í hópfimleikum. Efri röð …
Bronsverðlaunaliðið í blönduðum flokki á EM í hópfimleikum. Efri röð f.v.: Þórarinn Reynir Valgeirson, þjálfari, Guðmundur Kári Þorgrimsson, Daníel Orri Ómarsson, Kristinn Már Hjaltason, Logi Örn Ingvarsson, Helgi Laxdal Aðalgeirsson, Viktor Elí Sturluson, Karen Jóhannsdóttir, þjálfari, Inga Valdís Tómasdóttir, þjálfari. Neðri röð f.v.: Fanney Birgisdóttir, Tanja Ólafsdóttir, Hekla Björt Birkisdóttir, Heiða Kristinsdóttir, Helga Húnfjörð Jósepsdóttir, Íris Brynja Helgadóttir. mbl.is/Ívar

Blönduð sveit íslenskra ungmenna hafnaði í þriðja sæti og hlaut bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í Maribor í dag. Dansatriðið tryggði íslenska liðinu bronsverðlaunin en sveitin fékk langhæstu einkunn liðanna sex fyrir dansinn, 21.700, og skaust úr fimmta sæti upp í það þriðja. Biðin var löng eftir úrslitunum og óhætt að segja að úrslitun hafi verið dramatísk.

Gríðarlegur fögnuður brast út þegar tilkynnt var um úrslitin í dansinum sem mörum þótti takast vel en tæplega var reiknað með að hann nægði til þess að hífa líðið upp í verðlaun. Það var nú aldeilis.

Íslenska sveitin fékk samtals 54.383 stig. Danir urðu Evrópumeistarar með 56.300 stig og Norðmenn hrepptu silfri, þeirra heildareinkunn var 56.130. Ítalska sveitin varð fjórða með 53.733. Svíar hluta fimm sæti og Bretar það sjötta.

Fylgst var með keppninni í beinni textalýsingu á mbl.is.

Kl. 14.29 Ég veit ekkert hvað ég er að tala um. Ég þótt sjá að dansatriðið væri gott en að það væri svona langbest allra atriðanna og fá langhæstu einkunnina reiknaði ég ekki með. Þriðja sæti, bronsverðlaun til íslensku sveitarinnar. Aldeilis frábær árangur hjá þessum dugmiklu ungmennum sem létu mótlætið í annarri grein ekki slá sig út af laginu, þvert á móti þá hertu þau upp hugann, í stað þess að leggja árar í bát.

Kl.14.19 Dansinum er lokið og þar með hefur blandað unglingasveit Íslands lokið keppni á EM. Dansinn var góður hjá þeim, en sennilega ekki nógu góður til þess að tryggja sveitin verðlaunasæti. Sjáum til niðurstaðan liggur fyrir fljótlega. 

Kl. 14.05 Íslenska liðið situr í fimmta sæti eftir tvær greinar. Svo er að sjá að vonin um verðlaunasæti sé orðin veik, því miður. 

Kl. 13.55 Niðurstaða dómaranna liggur fyrir. Fyrir trampólínið fékk íslenska liðið 15.500 stig en 17.000 í undankeppninni. Föllin reyndust dýr, því miður. Sennilega er íslenska liðið í 5. sæti eftir aðra grein, að minnsta kosti stefni í það.

Kl. 13.50 Þar með lauk annarri grein, trampólínstökkum. Þau gengu afar vel hjá piltunum en nokkur föll hjá stúlkunum. Ekkert til að svekkja sig á enda fóru krakkarnir glaðir út af keppnisvellinum. Þau eru alveg örugglega í verðlaunabaráttu.

Kl. 13.27 Einkunnin liggur nú fyrir hjá íslenska liðinu fyrir dýnustökkin. Hún er 17.100 sem verðskulduð fyrir frábæra frammistöðu. Þess má geta að hópinn fékk 16.200 fyrir stökk sín í undankeppninni í fyrradag.

Kl. 13.21 Það er óhætt að segja að íslensku ungmennin hafi byrjað keppnina af krafti og glæsileika. Frábær stökkröð hjá þeim í þremur umferðum, aðeins eitt fall. Hópurinn uppskar mikið klapp og fögnuð hjá áhorfendum. 

kl. 13.03 Íslenska liðið hefur keppni fimmta í röðinni og byrjar á dýnustökku kl. 13.18.

Kl. 13 Keppnin var að hefjast. Tíðindamaður lenti í talsverðum töfum á leiðinni í keppnishöllinni og var rétt að setjast niður í þann mund sem „flautað“ var til leiks. Sveit Íslands hafnaði í þriðja sæti í undankeppninni í fyrradag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert