Heimskur heigull sem felur sig í Hvíta húsinu

Gregg Popovich lét Bandaríkjaforseta heyra það.
Gregg Popovich lét Bandaríkjaforseta heyra það. AFP

Gregg Popovich, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna í körfuknattleik og San Antonio Spurs í NBA-deildinni vestanhafs, var ómyrkur í máli þegar hann ræddi Donald Trump Bandaríkjaforseta og viðbrögð hans við andláti George Floyds á dögunum. Allt er á suðupunkti í Bandaríkjunum þessa dagana en Floyd lést 25. maí eftir átök við lögreglu.

Floyd var dökkur á hörund en hann lést þegar hvítur lögreglumaður kraup á hálsi hans við handtöku með þeim afleiðingum að hann kafnaði. Hörð mótmæli hafa geisað í Bandaríkjunum undanfarna daga þar sem lögregluofbeldi í garð þeirra sem eru dökkir á hörund er mótmælt en kynþáttafordómar hafa lengi verið rótgróið mál innan lögreglunnar í Bandaríkjunum.

Margar íþróttastjörnur hafa stigið upp og lýst yfir stuðningi við málstaðinn, þar á meðal Michael Jordan og Floyd Mayweather yngri sem bauðst til að borga fyrir jarðarför Floyds. Donald Trump Bandaríkjaforseti steig hins vegar fram í gær og ávarpaði þjóðina við lítinn fögnuð Popovich sem lét forsetann heyra það í samtali við The Nation.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

„Lögregluofbeldi í garð minnihluta hópa í Bandaríkjunum hefur verið lengi við líði og sama hvað gerist þá breytist aldrei neitt,“ sagði þjálfarinn reiður. „Það er ein af ástæðum þess að mótmælin hafa verið svona blóðug. En án leiðtoga sem sýnir enga leiðtogahæfileika og virðist hafa lítinn skilning á vandamálinu þá mun aldrei neitt breytast. Svo er líka fólk sem neitar að horfast í augu við vandamálið, hvítt fólk, og á meðan það er þannig þá verður þetta svona áfram.

Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með Bandaríkjaforsetanum undanfarna daga. Ef Trump væri með heila, þótt hann væri ekki nema með eitt prósent virkni, myndi hann stíga fram og segja eitthvað til þess að sameina þjóðina. En honum er alveg sama um þjóðina, jafnvel á tímum sem þessum. Þetta snýst allt um hann og hvað hann græðir á að segja eða gera. Hjá honum hefur þetta aldrei snúist um neitt annað en hann sjálfan.

Það er í raun galið að vera með forseta sem getur ekki bara sagt að líf þeirra sem eru dökkir á hörund skipti máli. Það er ein af ástæðum þess að hann felur sig í kjallara Hvíta hússins. Hann er heigull sem þorir ekki að takast á við vandamál og flýr af hólmi. Það væri best fyrir okkur að hunsa hann því það er ekkert sem hann mun eða getur gert til þess að laga stöðuna því hann er afvegaleiddur heimskingi,“ bætti Popovich við.

Popovich er ekki eingöngu með bakgrunn úr íþróttunum. Áður en hann helgaði sig körfuboltaþjálfun hafði hann komið að varnarmálum og velti fyrir sér frama hjá leyniþjónustunni, CIA, sem ungur maður. Kom þetta fram í spjalli Morgunblaðsins við Pétur Guðmundsson, fyrrverandi leikmann San Antonio Spurs, 28. febrúar 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert