Örfáir staðir sem Bandaríkjamenn vilja frekar heimsækja

Ferðamenn á Íslandi | 8. nóvember 2022

Örfáir staðir sem Bandaríkjamenn vilja frekar heimsækja

Ísland er nú á meðal fimm þjóða sem Bandaríkjamanna langar mest til að heimsækja að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. 

Örfáir staðir sem Bandaríkjamenn vilja frekar heimsækja

Ferðamenn á Íslandi | 8. nóvember 2022

Jóhannes Þór Skúlason.
Jóhannes Þór Skúlason. mbl.is/Dagmál

Ísland er nú á meðal fimm þjóða sem Bandaríkjamanna langar mest til að heimsækja að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. 

Ísland er nú á meðal fimm þjóða sem Bandaríkjamanna langar mest til að heimsækja að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. 

Í Morgunblaðinu á mánudag kom fram að gengi bandaríkjadals hafi ekki verið hærra gagnvart íslensku krónunni frá árinu 2008. Mbl.is spurði Jóhannes hvort sterk staða dollarans hefði áhrif á straum ferðamanna frá Bandaríkjunum til landsins. 

„Þessi staða kemur þeim til góða á Íslandi um þessar mundir en það er erfitt að meta hvort þeir hugsi mikið út í þetta fyrir fram,“ segir Jóhannes og bendir á að nokkrir samverkandi þættir geri það að verkum að Ísland sé vinsæll áfangastaður þegar Bandaríkjamenn ákveða að skreppa til Evrópu. Ef til vill spili gengi dollarans þar inn í. 

„Ýmsir þættir valda því að við fáum mjög marga bandaríska ferðamenn hingað. Markaðssetning undanfarinna ára hefur skipt miklu máli og skilað árangri. Ísland er nú einn af fimm áfangastöðum sem Bandaríkjamenn segjast helst vilja ferðast til. Við vorum áður á meðal tíu til fimmtán efstu þjóða á þeim lista. Er það töluvert mikil breyting á þessum mikla samkeppnismarkaði og sýnir að við erum í sviðsljósinu hjá bandarískum ferðamönnum. Okkur hefur tekist að koma ár okkar vel fyrir borð þar. Auðvitað hjálpar til þegar dollarinn er stekur og fyrir vikið er Ísland ódýrari áfangastaður fyrir Bandaríkjamenn en áður,“ segir Jóhannes. 

Spurður um hversu hátt hlutfall ferðamanna á Íslandi kemur frá Ameríku segir Jóhannes það vera um þriðjung. 

„Ameríkanar eru á þessu ári um 30% þeirra ferðamanna sem koma til landsins. Er það svipað hlutfall og var áður en heimsfaraldurinn skall á. Á síðasta ári voru þeir nær 40% og þegar opnaðist til fleira staða í Evrópu eftir faraldurinn þá fór hlutfallið aftur niður í um 30%. Það má alveg búast við því að það hlutfall haldist eða hækki örlítið þegar líður inn í næsta ár. Ef við horfum til þess að við séum komin inn í vitund bandarískra ferðalanga þá má búast við að þeim muni fjölga hér frekar en hitt.“

Flug frá austurströnd Bandaríkjanna til Keflavíkur tekur ekki ýkja langan tíma miðað við margt annað. Stundum um fjóra tíma eða svo. Er það farið að síast inn hjá Bandaríkjamönnum? 

„Á það hefur verið bent að þetta sé nokkuð þægileg flugleið fyrir austurströndina og hefur verið auglýst. Þar eru þessir helstu markaðir sem við höfum lengi unnið á og við erum orðin nokkuð þekkt stærð. Allt hjálpast þetta að og gengi dollarans gerir að verkum að fólk finnur hér að gott er að eiga dollara á Íslandi í dag. Sú saga fylgir þá einnig fólki heim þegar það fer héðan og breiðist út til fleira fólks,“ segir Jóhannes Þór í samtali við mbl.is. 

mbl.is